132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Búið er að ræða lengi dags eða þó nokkuð þetta fjáraukalagafrumvarp og ætla ég í sjálfu sér ekki að endurtaka mikið af því sem þegar hefur verið sagt í þessum ræðustól. Fyrri ræðumenn hafa farið yfir fjárreiðulögin og gert athugasemdir við það sem stendur fremst í frumvarpinu um hvað betur mætti fara í sambandi við fyrirkomulag fjárheimilda. Óþarfi er að lesa það upp aftur, þetta er á bls. 56 í frumvarpinu.

Mér finnst hins vegar rétt að vekja athygli á einu atriði sem snýr að þessum þætti málsins vegna þess að mér finnst eiginlega óviðeigandi að texti í fjáraukalagafrumvarpinu sé eins og hann er á bls. 93 undir lið 401 Náttúrufræðistofnun Íslands.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Lögð er til 38,9 millj. kr. fjárveiting af tveimur tilefnum. Annars vegar er farið fram á 36,5 millj. kr. fjárveitingu vegna uppsafnaðs rekstrarhalla Náttúrufræðistofnunar.“

Síðan segir:

„Um er að ræða halla sem aðallega er til kominn vegna lækkunar sértekna á síðustu árum …“

Það er ekki eins og þetta sé eitthvað nýtt sem er að koma upp, þetta er það sem mönnum er búið að vera ljóst lengi, að stofnunin var rekin með halla.

Svo segir:

„… ásamt fyrirsjáanlegum rekstrarhalla ársins í ár.“

Ég tel að svona texti undir þeim lið sem ég vitnaði til í fjáraukalagafrumvarpinu ætti ekki að sjást, því að hann er í rauninni að segja að ár eftir ár erum við að afgreiða fjárlög og fjáraukalög án þess að taka á þeim vanda sem vitað er að er til staðar í ákveðnum stofnunum. Það er kannski það sem hv. þingmenn hafa verið að gera að umræðuefni fyrr í dag varðandi fjárreiðulögin. En ég tek þetta eina dæmi vegna þess að mér finnst það sýna skýrt að jafnvel eru textar settir í fjáraukalögin sem sýna okkur beinlínis hversu mikið á skjön við förum við fjáraukalög, fjárreiðulög og almenn lög varðandi fjárheimildir ríkisins. Þetta er afar skýrt dæmi um að svona texti ætti auðvitað ekki að sjást því að það sem er fyrirséð er eitthvað sem við eigum að taka á en ekki að velta á undan okkur, jafnvel í mörg ár eins og þessi texti gefur skýrt til kynna.

Síðan er annað sem mig langar að gera að umræðuefni og er að vísu mál sem ég er ákaflega hlynntur. Það er málefni sem snýr að tilraun til að útrýma mink á ákveðnum svæðum og taka betur á við eyðingu refa eða það verkefni að halda refastofninum á Íslandi í skefjum og koma í veg fyrir skefjalausa fjölgun. Ég vil gera það sérstaklega að umræðuefni sem kemur fram í fjáraukalagafrumvarpinu um að fara í sérstakt verkefni við að eyða mink úr náttúru Íslands á þremur völdum svæðum.

Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að slík stefnumótun sem kemur fram í fjáraukalagafrumvarpinu hefði náttúrlega átt að vera í fjárlögum þessa árs, eðlilega hefði hún átt að vera þar. Þar hefði stefnumörkunin átt að koma fram en ekki að við séum að ræða hana í fjáraukalagafrumvarpi þegar tveir og hálfur mánuður eru eftir af árinu og vafasamt að verkefnið komist af stað á þessu ári, einkanlega þegar það er upplýst í fjárlaganefnd að ekki er búið að velja þau svæði sem þessi framkvæmd á að fara fram á. Ekki hefur verið ákveðið hvar á að gera þessa tilraun, sem ég tek fram til að eyða öllum misskilningi að ég er mjög jákvæður fyrir og tel mjög gott að við förum í þetta verkefni. En við tökum 45 millj. kr. fjárveitingu í fjáraukalögin og við erum að leggja upp með ákveðna stefnumótun um hvernig við ætlum að standa að því að gera þetta verkefni á komandi árum. Ég tel að slík stefnumótun eigi tvímælalaust heima í fjárlagafrumvarpi en ekki í fjáraukalagafrumvarpi og er ég þá ekki að leggjast gegn því verkefni sem hér er lagt upp með. Ég tel að það sé mjög af hinu góða að við tökum á því að reyna að útrýma minknum, ef það er þá hægt, úr íslenskri náttúru. Við stóðum vissulega sjálf að því að flytja hann inn og missa hann út í íslenska náttúru og ekki víst að okkur takist að útrýma honum. En þetta er held ég mjög virðingarverð tilraun sem hér er lagt upp með þó að, eins og ég sagði áðan, ekki liggi enn þá fyrir hvernig á að standa að henni. Þar af leiðandi held ég að þessi stefnumótun hefði átt að vera í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár því að langt er nú liðið á árið. Þetta vildi ég sagt hafa um þetta atriði.

Hæstv. forseti. Ég tel einnig að betur þurfi að taka á hallanum hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég tel að við séum ekki að taka nægilega á þar. Það var vitað hver þessi halli var og það var vitað að við sameiningu og stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands mundi verða verulegur kostnaður. Ég tel að við eigum að taka myndarlega á þessu og eyða því vandamáli. Það er afar erfitt fyrir nýja stofnun eins og Landbúnaðarháskóla Íslands að draga skuldahala inn í sína nýju framtíð og ekki rétt að leggja slík vandamál á stofnun sem við væntum mikils af á komandi árum. Þess vegna væri best að tekið yrði svo vel á því vandamáli að myndum í raun eyða þessum halla.

Mér sýnist að kannski sé verið að fara svolítið misjafnlega að. Mér sýnist að staðið hafi verið nokkuð öðruvísi að málum varðandi Háskólann í Reykjavík og niðurlagningu Tækniháskólans og sameiningu þeirra. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji að aðfinnslur mínar við það að klára ekki að taka á vanda Landbúnaðarháskólans eigi við rök að styðjast og hvaða skoðun hann hafi á nýstofnuðum skóla sem dregur skuldahala á eftir sér inn í framtíðina. Ég tel að það dragi niður kraft í nýrri stofnun og vil gjarnan sjá að tekið yrði á þessu máli enda eigum við í raun að gera það. Við eigum ekki að að velta vanda á undan okkur sem við teljum að sé nokkuð þekktur. Það er ekki rétt meðferð fjármuna að ýta málum þannig fram og til baka.

Það var líka vitað að halli yrði hjá Háskólanum á Akureyri og að auðvitað yrði að taka á því. Á þetta var bent við afgreiðslu fjárlaganna á liðnu ári og reyndar einnig varðandi framhaldsskólana. Vonandi er nú verið að taka þannig á að það dugi til þess að lagfæra þann halla.

Mig langar aðeins að víkja að erindi í fjáraukalagafrumvarpinu, lið á bls. 90 sem heitir Niðurgreiðsla á húshitun. Þetta eru síðari viðbrögð við hinum margfrægu raforkulögum sem hafa skipt upp stöðu byggðanna m.a. þannig að sumar byggðir, sérstaklega hinar fámennari, eru mun verr settar eftir þessa lagasetningu en fyrir og þeir sem þar búa ásamt atvinnurekstrinum greiða verulega hærra raforkuverð en áður. Ég vil vekja athygli á þessu máli alveg sérstaklega vegna þess að ég sat í vor aðalfund Rariks og óskaði þar alveg sérstaklega eftir því við forustumenn þess fyrirtækis að þeir legðu með sér á borðið sundurliðaða reikninga um það hvað fólk væri að borga á hinum einstöku landsvæðum, annars vegar fyrir lagabreytinguna og hins vegar eftir lagabreytinguna, þannig að menn þyrftu ekki að rífast um hvort húshitunarkostnaður hefði hækkað um 10% eða 40%, eins og dæmi eru til um, alla vega samkvæmt tölum sem við þingmenn höfum séð í reikningum sem við höfum fengið senda. Ég óskaði eftir því við fyrirtækið í ræðu sem ég hélt á þessum aðalfundi að þeir sýndu nú þann manndóm að fara yfir orkusölusvæði sín og taka saman reikninga fyrir sambærileg hús fyrir og eftir breytingu, íbúðarhús af minni gerðinni, stærri íbúðarhús, kannski upp undir 200 fermetra, og minni og stærri fyrirtæki á viðkomandi svæðum og að þetta fyrirtæki sendi okkur á Alþingi slíkar upplýsingar núna á haustdögum þannig að við gætum rætt þessi mál út frá raunverulegri samantekt sem gerð væri á fleiri en einu stöku húsi, en þegar einstaklingar senda okkur reikninga þá senda þeir reikninga frá einstökum húsum. Alla vega hafa mér ekki borist þessar upplýsingar í hendur. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi séð slíka útreikninga. Það var tekið nokkuð vel í þessa tillögu mína, tel ég, á þessum fundi og ég hefði vænst þess að fyrirtækin sæju sér hag í því að vinna upp slíkar tölur þannig að menn væru ekki að tala út og suður um eitthvað sem ætti ekki við rök að styðjast eins og þeir báru sig undan á þessum aðalfundi hjá Rarik að væri að gerast. Ég tala nú ekki um iðnaðarráðherrann sem bar sig alveg sérstaklega undan því að hallað væri réttu máli í þessu og hann hefur gert það líka hér í hv. Alþingi.

Ég held að það sé kominn tími til þess að við fáum að vita hvað er nákvæmlega satt og rétt í þessu og ég geri þetta að umræðuefni vegna þess að hér er beðið um sérstaka fjárveitingu upp á 100 millj. kr. vegna niðurgreiðslu á rafhitunarkostnaði. Ég tel að við alþingismenn eigum að fá þessar upplýsingar frá þeim fyrirtækjum sem selja á mismunandi svæði, annars vegar byggðum undir 200 íbúum og hins vegar yfir o.s.frv. þannig að hægt sé að tala um þetta vandamál, því að þetta er vandamál. Því miður fylgdu þessari lagasetningu leiðinleg vandamál og hún hefur ekki orðið til þess að bæta atvinnulíf eða búsetu á landsbyggðinni heldur þvert á móti. Má þá minnast t.d. orða manna úr Súðavík sem sýndu fram á að rækjuvinnslan þar borgaði 1,5–2 millj. kr. meira í orkukostnað en rækjuverksmiðja í stærri byggð ekki allfjarri. Þetta er náttúrlega mismunun sem kemur sér afar illa í hinum dreifðu og smærri byggðum.

Ég vildi víkja að þessu atriði, hæstv. forseti, vegna þess að ef hæstv. fjármálaráðherra veit eitthvað um þetta mál þá held ég að ágætt væri að á það yrði minnst hér. En kannski hefur hann ekki fengið þessar upplýsingar í hendur frekar en sá sem hér stendur. Það er auðvitað leitt þegar ekki er hægt að fá upplýsingar frá fyrirtækjum um svona atriði þannig að menn geti rætt þetta út frá samanburðarhæfum tölum því að það eru auðvitað fyrirtækin sem hafa þær.

Undir lok ræðu minnar, hæstv. forseti, vil ég spyrja um óbyggðanefnd. Spurningin er sú hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi um það vitneskju hversu mikill heildarkostnaður hefur hlotist af óbyggðanefndinni og því ferli öllu saman sem þar fór af stað og hversu mikið ríkissjóður hefur þurft að leggja út fyrir því á undanförnum árum. Ég geri ráð fyrir því að ríkissjóður hafi lagt hér út verulega fjármuni og er ekki viss um að ríkissjóður hafi haft nokkurn einasta hag af þeirri vegferð sem farið var í á sínum tíma. Það væri afar fróðlegt ef hægt væri að upplýsa það, þ.e. ef ráðherrann veit það, án þess að ég sé að fara fram á að það sé nákvæmt, hver heildarkostnaðurinn er orðinn af þessu ferli. En ef hann veit það ekki fer ég fram á það við hæstv. fjármálaráðherra að hann láti vinna upplýsingablað þar sem kemur fram hversu mikill kostnaður hefur fylgt þessu verkefni á undanförnum árum og að þar væri líka svolítið sundurliðað hvað væri lögfræðikostnaður og hver væri kostnaður þeirra sem sótt hefur verið á, því að ef ég man rétt þá tók ríkissjóður að sér að greiða kostnaðinn fyrir þá bændur eða landeigendur sem sótt var á af hálfu ríkisins.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið því sem ég vildi koma á framfæri við þessa umræðu. Við höfum auðvitað tækifæri við 2. umr. til þess að fara betur í gegnum þessi mál og við fjárlagaumræðuna. En það eru einmitt svona upplýsingar sem mér finnst skorta til þess að við getum unnið verk okkar nógu vel.