132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:41]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo, þegar menn gera samninga og komast að góðri niðurstöðu, að þá vilja menn gjarnan hrinda þeim í framkvæmd sem fyrst. Þarna er um verulegar breytingar að ræða á skipulagi kynbótastarfsins. Með þeim eru færðar til greiðslur þannig að greiðslur sem bændur greiddu áður í gegnum sjóðina greiða þeir annars vegar beint fyrir þjónustuna og hins vegar koma greiðslur á móti í gegnum samninginn inn í kynbótastarfið sjálft. Ég held að þar sé um mjög skynsamlega breytingu að ræða og að rétt hafi verið að hrinda henni í framkvæmd sem fyrst.

Ég stend í þeirri meiningu að búvörusamningurinn hafi verið lagður fyrir þingið og búið sé að samþykkja hann. Ef einhver telur að svo sé ekki þá bið ég um að ég verði leiðréttur með það.

Það sem er hins vegar skemmtilegt við breytinguna sem hv. þingmaður Helgi Hjörvar spyr um er að hún gæti leitt til þess að einstakir bændur geti í ríkari mæli en áður haldið naut þannig að þau verði ekki bara á hinum svokölluðu nautastöðvum. Það mun hugsanlega gefa meiri breidd í kynbótastarfið en áður var. Maður mun kannski á ferðum sínum um landið mæta bændum að leiða naut sín á milli bæja í þjónustustarfinu.