132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:43]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég efa ekki að það verði gaman að sjá naut víðar en verið hefur og Guttorma hér og Guttorma þar.

Ég verð þó að lýsa vonbrigðum mínum með að nýr hæstv. fjármálaráðherra gefi út þá yfirlýsingu að ef einhverjar skynsamlegar breytingar eða þörf verkefni séu í ríkiskerfinu þá sé um að gera að ráðast í þau strax og gefa út aukafjárveitingar fyrir þeim eins og hér er um að ræða. Ég held að mýmörg þörf verkefni séu á öllum sviðum þjóðlífsins sem full ástæða væri til að setja fjármuni í en það eigi að vera grundvallarsjónarmið að fjárlög haldi og ráðherrar eigi ekki að kvitta upp á samninga vor og haust um aukafjárveitingar hér og aukafjárveitingar þar. Það skapar aðhalds- og agaleysi í ríkisrekstrinum öllum og mun auka ríkisútgjöld allt of mikið, einkanlega nú á þessum þenslutímum. Mér þykir leitt að heyra hæstv. fjármálaráðherra, á sínum fyrstu dögum, mæla slíkum vinnubrögðum bót. Ég fékk ekki betur séð en að ýmsum þingmönnum kæmi á óvart hinn nýi útgjaldasamningur við Bændasamtökin sem gerður var á vordögum. Ég held að hann hafi fengið heldur litla kynningu í þinginu sem þrátt fyrir allt á að fara með fjárveitingavaldið.