132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:45]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Búið er að ræða lengi dags frumvarp til fjáraukalaga og fara nokkuð vel yfir það frumvarp sem fyrir liggur. Ég ætla þó að leyfa mér að bæta aðeins í þá umræðu og kannski sérstaklega vegna þess að ég tók talsverðan þátt í umræðunni um fjárlög ársins verandi í fjárlaganefnd á þeim tíma. Margt af því sem við sjáum í fjáraukalögum nú kemur í sjálfu sér ekki á óvart og talsvert margt af því sem þar kemur fram held ég að við getum fundið í umræðunni um fjárlögin sjálf frá því á síðasta ári þar sem verið var að benda á að það hlyti að þurfa að taka ákveðna hluti upp í fjáraukalögum og ég held að þeir séu hér.

Við í stjórnarandstöðunni höfum nokkuð lengi gagnrýnt fjárlagavinnuna eða fjárlögin eins og þau eru lögð fram á hverjum tíma og bent á með gildum rökum að ég tel að oft sé ekki mikið að marka fjárlögin í sjálfu sér þegar þau eru lögð fram á hverjum tíma. Einnig höfum við haldið því fram, og með nokkuð réttu held ég, að þrátt fyrir fjáraukalög sé langt frá því að búið sé að ná utan um gjaldaliði sérstaklega. Minnir mig að við höfum reiknað það út á síðasta ári að munað hafi u.þ.b. 20 milljörðum á hverju ári ef borin voru saman fjárlög hvers árs og síðan ríkisreikningurinn sem eru lokin á hverju ári fyrir sig.

Maður veltir fyrir sér af hverju sé svona erfitt að áætla, af hverju sé svona erfitt að gera sér grein fyrir því á milli ára hvernig gjöld muni þróast eða hvernig tekjur muni þróast, sérstaklega þegar maður hlustar á það úr þessum ræðustól aftur og aftur að það ríki svo mikill stöðugleiki í þjóðfélaginu að maður gæti helst haldið að hlutirnir væru það stöðugir að þeir væru eins frá ári til árs. Ég held að það sem við sjáum í fjáraukalagafrumvarpinu sé hin mikla þensla sem einkennir þjóðarbúskapinn eins og er. Maður veltir líka fyrir sér af hverju sú þensla virðist koma þeim sem áætla í fjármálaráðuneytinu svona mikið á óvart á hverju ári. Kannski er það vegna þess að menn trúa að það ríki stöðugleiki og að hægt sé að treysta því að hlutirnir breytist ekki svo mikið á milli ára. Í raunveruleikanum er langt frá því að svo sé.

Í fjáraukalagafrumvarpinu er tafla yfir helstu þjóðhagsstærðirnar, hver magnbreytingin á þeim er milli ára. Í fyrsta lagi er tekið fram í þessari töflu hvernig fjárlög ársins voru og síðan hvernig þeir sömu og áætluðu í fjárlögunum áætla að þau endi á þessu ári þegar árið er langt gengið. Það verður að segjast eins og er og hefur örugglega verið nefnt áður að munurinn á þessum magnbreytingum á helstu þjóðhagsstærðum er geysilega mikill, munurinn á því sem áætlað var á fjárlögum ársins 2005 og því sem menn áætla nú að raunin verði þegar árið 2005 endar.

Sums staðar er munurinn nánast helmingur. Magnbreyting einkaneyslu var áætluð á fjárlögum 5,1% á milli ára en reynist vera 9,5%. Það er munur upp á 4,4%. Það eru stórar skekkjur í þessum tölum. Fjárfesting átti að aukast um 18% samkvæmt fjárlögunum en eykst samkvæmt nýjustu spá um 28,5%. Þjóðarútgjöldin alls áttu að aukast um 7,5% en aukast samkvæmt nýjustu spá um 12,8%. Það er nánast sama hvaða þjóðhagsstærðir við tökum og berum saman hvernig voru í fjárlögum ársins 2005 og hvernig menn áætla að þær endi núna, alls staðar er svona mikill munur á áætlunum og því sem menn telja að verði raunin. Ef hér ríkti stöðugleiki væri þetta ekki svona. Ef hér ríkti stöðugleiki væri mjög einfalt í sjálfu sér að áætla magnbreytingarnar, hverjar þær yrðu á helstu þjóðhagsstærðum milli ára.

Í fjáraukalagafrumvarpinu segir að aukin umsvif í efnahagsmálum og aukin neysla hafi einkennt yfirstandandi ár og tekjurnar hafi þar af leiðandi aukist verulega. Þar kemur einnig fram að hlutfall skatttekna af landsframleiðslu, landsframleiðslu sem hefur hækkað mjög mikið, hækki frá áætlun fjárlaga. Fjárlögin gerðu ráð fyrir að hlutfall skatttekna eða skattbyrði landsmanna yrði 29,1% af landsframleiðslunni en nú er gert ráð fyrir að hún verði 31,2%. Í þessum fjáraukalögum er því gert ráð fyrir meiri skattbyrði á landsmenn af landsframleiðslu en fjárlögin gerðu ráð fyrir.

Eins og ég sagði eru í þessu fjáraukalagafrumvarpi margir gamlir kunningjar frá því í fjárlagaumræðunni. Var sagt úr þessum ræðustól áðan að sumt af þessu væri af því að menn væru að bæta uppsafnaðan halla vegna þess að náðst hefði utan um rekstur ýmissa stofnana. Menn væru í raun að umbuna stofnunum fyrir að hafa náð tökum á rekstri sínum með því að bæta halla fyrri ára þó að slíkt eigi ekki að gera í fjáraukalögum samkvæmt fjárreiðulögunum heldur fjárlögum hverju sinni. Ég læt það liggja á milli hluta. Ber að fagna því ef svo er að annaðhvort sé farið að áætla rétt fyrir gjöldum stofnana eða að stofnanir sem hingað til hafa verið með uppsafnaðan halla ár eftir ár og bætt við hann á hverju ári séu farnar að reka sig nálægt því sem ráð er fyrir gert.

Eitt er það sem ég hef talsvert mikið gagnrýnt í sambandi við áætlun í fjárlögum og full ástæða til að gagnrýna kannski líka í fjáraukalögum eru svokallaðar afskriftir skattkrafna. Þetta eru stórar tölur í þessum frumvörpum og maður veltir fyrir sér og ég hef velt þeirri spurningu upp áður í þessum ræðustól: Hvað ræður því þegar verið er að áætla hverjar verði afskriftir skattkrafna? Gert var ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að afskriftir á þessum kröfum yrðu 4 milljarðar kr. Nú er bætt í og gert ráð fyrir að þær verði 8 milljarðar kr. Það er u.þ.b. helmingi hærri tala en áður var gert ráð fyrir. Ef skoðað er aftur í tímann sér maður að afskriftir á þessum sömu skattkröfum í ríkisreikningi fyrir árið 2004 voru 10 milljarðar. Þegar maður horfir á slíka tölu og sér síðan áætlun árið eftir upp á 4 milljarða veltir maður fyrir sér hvað ráði því hvernig menn áætla þetta.

Svona hefur þetta verið á hverju ári. Núna loksins eftir að hafa áætlað þessar afskriftir 4 milljarða mörg ár í röð virðast spámenn fjármálaráðuneytisins hafa áttað sig á að þarna þyrfti kannski að gera betur og í fjárlögum fyrir næsta ár sem liggja fyrir þinginu er gert ráð fyrir að afskriftirnar verði 6 milljarðar kr. en ekki 4.

Hvað eru afskriftir skattkrafna? Er þetta allt vegna þess að einstaklingar eða fyrirtæki verða gjaldþrota og að afskrifa þurfi skattkröfur af þeim þess vegna? Nei, ég held að uppistaðan í þessum stóru tölum séu áætlanir skattstjóra, arfavitlausar áætlanir skattstjóra sem áætlaðar eru bæði á einstaklinga og lögaðila sem ekki skila skattframtölum eða virðisaukaskattsskýrslum í rekstri. Þá koma svona arfavitlausar áætlanir inn til ráðuneytisins og það lítur út eins og ríkiskassinn eigi þessa peninga hjá einhverjum en þegar upp er staðið er þetta ekkert annað en bull og vitleysa. Það stendur ekkert á bak við þessar kröfur annað en einhverjar áætlanir sem gerðar eru hjá hverjum skattstjóra fyrir sig og oft og tíðum alveg óskiljanlegt hvað ræður þeim áætlunum sem fram eru settar.

Ég hef spurt um það áður úr þessum sama ræðustól og hvort ekki standi til að breyta þessum vinnubrögðum með einhverjum hætti þannig að við vitum betur hvaða tekjur það eru sem ríkið geti átt von á í skatti og hvort ekki sé rétt að breyta vinnubrögðunum við að áætla skatta á þá sem ekki skila skýrslum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta þarf að gera á einhvern máta, það þarf að áætla jafnvel með þeim hætti að það hvetji einstaklinga til að standa sig í því að skila skattskýrslum, og eins að fyrirtæki standi skil á skýrslum eins og vera ber. En fyrr má nú rota en dauðrota, frú forseti, í þessum efnum, og þegar það sést ár eftir ár að skekkjan er svona mikil frá áætlun til þess sem raunin verður hlýtur það að vera réttmæt krafa að fjármálaráðuneytið og embættismenn þar taki aðeins á þessu máli og reyni að færa þetta nær því sem eðlilegt getur talist.

Ég ætla að koma aðeins að nokkrum atriðum í frumvarpinu sjálfu, sumt af því hefur verið nefnt áður og ég kannski rétt tæpi á því eða bæti aðeins við það. Það vakti athygli mína eins og fleiri að hjá menntamálaráðuneytinu er óskað eftir 25 millj. kr. fjárveitingu vegna aðalskrifstofu menntamálaráðuneytisins. Uppistaðan í henni eru 20 millj. kr. eins og áður hefur komið fram „í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar um að íslensk stjórnvöld bjóði til heimsfundar kvenkyns menningarráðherra sem haldinn var í haust“.

Hvað er þetta að gera í fjáraukalögum? Full ástæða er til að spyrja hvort þetta sé heildarkostnaðurinn við heimsfund kvenkyns menningarmálaráðherra. Eða var kostnaðurinn meiri? Mér þætti vænt um ef hæstv. fjármálaráðherra gæti svarað mér, sem er kannski ekki sanngjarnt að ætlast til við þessa umræðu, hvernig kostnaðurinn skiptist við þessa 20 millj. kr. veislu. Það hlýtur að hafa verið nokkuð góð og mikil veisla fyrir 20 millj. kr. Eða var verið að borga hinum erlendu kvenkyns menningarráðherrum fyrir að koma á þennan heimsfund sem ríkisstjórnin taldi allt í einu að halda þyrfti á Íslandi eftir að við fengum kvenkyns menningarráðherra?

Hér hefur verið rætt um Háskólann á Akureyri og hvernig staðið hefur verið að fjárveitingum til þess skóla á undanförnum árum. Það þarf engum að koma á óvart að Háskólinn á Akureyri skuli vera inni í fjáraukalögum. Ég held að við höfum bent á það við hverja einustu umræðu um fjárlög að vöxturinn á þeim skóla og krafturinn sem fylgir skólanum er það mikill að það virðist alltaf eins og ríkið sé á eftir þegar kemur að því að áætla hvað reksturinn á honum komi til með að kosta, og ég verð að segja eins og er að ég skil ósköp vel að sá skóli skuli vera hér í fjáraukalögum.

Sama má kannski segja með framhaldsskólana, 100 millj. kr. aukafjárveiting til að greiða aukin útgjöld. Þetta er nokkurs konar pottur sem allir framhaldsskólarnir eiga að geta gengið í. Ég velti fyrir mér, og gott væri ef hæstv. fjármálaráðherra gæti svarað því, hvernig þessar 100 milljónir skiptast á skóla, hvort búið sé að skipta þessari fjárveitingu á skólana eða hvort þetta er enn þá óskilgreindur pottur sem þeir muni koma til með að þurfa að slást um.

Í framhaldi af því sem sagt hefur verið fyrr í dag að verið sé að ganga frá uppsöfnuðum halla stofnana sem hafi bætt sinn rekstur og séu komnar með reksturinn í lag, þá veltir maður því fyrir sér þegar maður skoðar utanríkisráðuneytið hvort þá sé hægt að draga þá ályktun að nú sé reksturinn á utanríkisráðuneytinu, bæði á aðalskrifstofunni og sendiráðunum, kominn í lag, því hér er verið að færa 50 millj. kr. til aðalskrifstofunnar til að bæta uppsafnaðan halla og 274 millj. kr. til að bæta uppsafnaðan halla sendiráðanna.

Landbúnaðarráðuneytið vekur athygli. Hálfur milljarður í fjáraukalögum til landbúnaðarráðuneytis. Það vakna spurningar þegar maður veltir fyrir sér í hvaða liði fjármunir fara á fjáraukalögum. Maður veltir því fyrir sér hvort það hefði frekar átt heima í fjárlögum hvers árs. Hér er t.d. 60 millj. kr. fjárveiting til að mæta töpuðum kröfum á hendur sláturleyfishöfum fyrir vinnu við heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum. Þarna er um að ræða yfirdýralækni, lögboðið eftirlit sem greiða ber fyrir ákveðin gjöld. Innheimtan á þeim gjöldum virðist ekki betri en svo að nú þurfi að taka 60 millj. kr., væntanlega eru uppsafnaðar til margra ára, og fella niður vegna þess að sláturleyfishafar hafa ekki greitt fyrir reglubundið eftirlit.

Hér er líka, frú forseti, fjósbygging á Hvanneyri. Í mörg ár hefur verið rifist um hvort endurgreiða eigi virðisaukaskatt af þeirri framkvæmd eða ekki. Nú virðist menn loks komnir að niðurstöðu um það og þá þarf að leggja Landbúnaðarháskóla Íslands til 22,3 millj. kr. til að borga virðisaukaskatt af framkvæmdinni, reyndar í sama vasa og tekið er úr.

Annar gamall kunningi í frumvarpinu er reiðskemma á Hólum í Hjaltadal. Lengi hefur verið deilt um það með hvaða hætti ætti að reisa þá skemmu, hvort ætti að reisa hana og hver ætti að reisa hana. Hér sé ég að verið er að hreinsa það upp með því að ríkið kaupi reiðskemmuna fyrir 60 millj. kr. Þá á ríkið formlega hina miklu reiðskemmu á Hólum og þarf ekki að rífast um það meira.

Varðandi sjávarútvegsráðuneytið, af því að hæstv. fjármálaráðherra þekkir það afskaplega vel, fer ég í sama lið og fleiri hafa kannski gert, þ.e. Hafrannsóknastofnun. Auðvitað vissu menn að við ætluðum að rannsaka hrefnustofninn og auðvitað vissu menn að áætla þyrfti til þess fjármuni. En svo virðist sem vísindaveiðar á hrefnu kalli alltaf á fjármuni í fjáraukalögum. Spurningin er, eftir að menn hafa stundað þetta í tvö eða þrjú ár og ætla að halda áfram að stunda þetta, hvort ekki sé hægt að áætla í fjárlögum hvað þetta á að kosta og koma því þar inn.

Hins vegar eru hér 19 millj. kr. vegna útgjalda stofnunarinnar við loðnuleitarleiðangra sem eru utan rannsóknaráætlunar fyrir árið 2005. Að sjálfsögðu getur verið full ástæða til þess. Oft og tíðum verða menn að bregðast við breytingum með því að breyta rannsóknaráætlunum og stundum getur það kostað meira en menn gerðu ráð fyrir. En í þessu sambandi hlýtur maður að velta fyrir sér hvort Hafrannsóknastofnun hafi ekki fengið fjármuni úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins eins og til stóð. Ef ég man rétt áttu rúmar 400 millj. kr. að koma úr Þróunarsjóði þegar hann yrði gerður upp. Hefur Hafró ekki fengið neitt af þessum peningum til að mæta kostnaði við rannsóknir sem ekki voru á áætlun? Manni skildist, þegar Þróunarsjóðurinn var lagður niður, að nota ætti fjármunina í slíkt.

Atriði sem eiga heima í fjáraukalögum, sem ég held að enginn geti deilt um, er t.d. fjárveiting til Landhelgisgæslu Íslands. Til hennar eru veittar 9,8 millj. kr. til sprengjuleitar og -hreinsunar á Patterson-svæði á Suðurnesjum. Þegar það kemur upp óvænt að menn finna ósprungnar sprengjur á ákveðnum svæðum þá ber að sjálfsögðu að bregðast við og veita til þess fjármuni til að koma í veg fyrir að þeir sem leið eiga um þau svæði slasi sig á þeim vítistólum sem liggja allt of víða um Suðurnes.

Hjá heilbrigðisráðuneyti er af mörgu að taka. Vegna þess að tíma mínum er að ljúka í fyrstu ræðu minni í umræðunni ætla ég að halda mig við það sem ég þekki best. Ég hef staðið hér í pontu og rætt fram og til baka um að ekki væru veittir nægir fjármunir til Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Í fjárlagaumræðunni fyrir árið 2005 var mikið um það talað að vanáætlað væri á báðar þær stofnanir og yrði að taka á rekstrarhalla þeirra. Það er gert með þessu frumvarpi og ég held að það komi til með að hjálpa áðurnefndum stofnunum. Einnig er tekið á stofnkostnaði við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja upp á 50 millj. kr. Það er skref í áttina að því að efna það samkomulag sem hæstv. heilbrigðisráðherra gerði við Suðurnesjamenn um uppbyggingu á 3. hæð svokallaðrar D-álmu, þótt það uppfylli ekki þann samning eins og að var stefnt á sínum tíma. Þetta er þó skref í áttina að því.