132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[17:55]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja umræðuna mikið en fannst rétt að ég kæmi hér upp og ræddi þessi mál örlítið, sérstaklega eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég tel að sú hugmynd sem hann var með auki ekki réttlæti í skattheimtu hér á landi. Það yrði til þess að þeir sem lægri hafa tekjurnar í þjóðfélaginu færu að bera þyngri byrði af því fé sem hér er verið að innheimta til ráðstöfunar fyrir bættum hag aldraðra.

Ég held að til að dreifa skattbyrðinni væri miklu nær að mínu viti að hafa þessu tölu örlítið hærri og taka þá betur á varðandi húsnæði og aðbúnað aldraðra en setja þá líka tekjumark hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar eða tekjur undir því sem talið er þurfa til eðlilegrar framfærslu, sem er sennilega vel yfir 100 þús. kr., lágmarksframfærslan á landinu í dag fyrir einstakling. Það væri vel hægt að hugsa sér að hækka þá viðmiðunartölu eitthvað og fara frekar með hærri prósentu inn í þetta hækkunarverð.

Ég held að við eigum að stíga það skref að reyna að ná þeim áföngum sem við viljum ná í vistunar- og öldrunarmálum að þessu leyti. Ég efast ekki um að hver Íslendingur sem hefur á annað borð eðlilegar tekjur sér til framfæris sé tilbúinn að greiða þetta gjald. Ég tek því ekki undir þá útfærslu sem hv. þingmaður nefndi áðan. En það er sjálfsagt að skoða þessi mál frá öllum hliðum en útfærsla sem eykur greiðslubyrði þeirra sem lægstar hafa tekjurnar, á það held ég að sé ekki á bætandi miðað við þá skattastefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið.