132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Húsnæðismál geðfatlaðra.

145. mál
[13:58]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég mátti til með að koma hér upp vegna athugasemdar sem var flutt áðan. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir talaði um að ekkert þýddi að vitna í sölu Símans, peninga sem koma eftir nokkur ár. Auðvitað þýðir að vitna í sölu Símans og tala um þann milljarð sem stjórnvöld ætla að nota til að koma til móts við geðfatlaða. Hér er verið að gera stórátak í uppbyggingu búsetuúrræða og þjónustu líka og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir aðstandendur að geta horft fram á að stjórnvöld ætli að taka stórlega á í þessum málum þannig að ég held að ekki sé við hæfi að tala um þessa upphæð af léttúð.

Einnig hefur komið fram að setja eigi í þetta 500 millj. kr. aukalega úr Framkvæmdasjóði fatlaðra þannig að þetta eru 1,5 milljarðar sem skipta, eins og ég segi, aðstandendur og einnig geðfatlaða gríðarlegu máli, þ.e. að geta horft fram á þetta næstu árin.