132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Einkareknir grunnskólar.

115. mál
[14:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort von sé á almennri löggjöf utan um einkarekna grunnskóla, þ.e. skóla sem reknir eru af öðrum en opinberum aðilum utan ramma hverfisskólanna. Í öðru lagi hvort slík löggjöf ætti að mati ráðherra að samræma framlög til slíkra skóla og hvort takmarka eigi eða banna innheimtu skólagjalda ofan á opinberu framlögin.

Fjölbreytni í starfsemi grunnskólanna er mikilvæg og svigrúm hverfisskólanna til aukins sjálfstæðis. Hverfisskólarnir búa við töluvert sjálfstæði sem má auka með t.d. breytingum á námskrá þar sem meira er lagt upp úr valfrelsi nemenda á ýmsa lund. Þannig er auðveldara fyrir marga nemendur að finna réttu fjölina sem ekki finnast í skólakerfinu núna. Grunneiningin í grunnskólunum á að vera hverfisskóli þar sem sveitarfélagið tryggir jafnrétti til náms og það er athyglisverð hugmynd að fleiri en einn skóli sé í hverju hverfi til að auka valfrelsi foreldra og nemenda. En til viðbótar við hverfisskólana eiga að mínu mati að fá að blómstra sem valkostur utan við ramma hverfisskólanna sjálfstætt starfandi skólar þar sem nemendum er ekki mismunað á efnalegum forsendum. Sjálfstætt starfandi grunnskólar, einkareknir fyrir opinbert fé eru að mínu mati góð viðbót við hverfisskólana. Grunnskólar sem eru reknir utan um ákveðna tiltekna hugmyndafræði standa öllum opnir og innheimta ekki skólagjöld, skólar á borð við barnaskóla Hjallastefnunnar sem er myndaður utan um mjög merkilega hugmyndafræði.

Aukin fjölbreytni á grunnskólastigi að þessu leyti getur af sér betra menntakerfi, betri grunnskóla og þar af leiðandi betri menntun fyrir börnin. Töluverð umræða hefur átt sér stað um stöðu einkareknu grunnskólanna á köflum. Hún er ekki nægjanlega góð og það skortir skýran lagaramma utan um starfsemi skólanna. Eins og staðan er núna er ekkert sem segir til um stöðu þeirra eftir að leyfi hefur fengist frá stjórnvöldum til að hefja rekstur á grunnskóla. Nauðsynlegt er að þrýsta á menntamálayfirvöld að marka skólunum skýran ramma og því beini ég þeirri fyrirspurn minni til hæstv. menntamálaráðherra.

Margar reglur sem mætti hafa til viðmiðunar eru t.d. að þær taki mið af jöfnuði og að viðkomandi skóli fái rekstrarstyrk sem nemur meðaltali á hvern nemanda í borgarskólunum í umræðunni eða miðist við stærð hans, að skólanum verði óheimilt að innheimta skólagjöld og hann megi ekki mismuna nemendum við inntöku, sæki fleiri en einn um pláss beri að beita hlutkesti. Slíkar reglur mætti hafa til hliðsjónar við þá lagasmíð og því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra menntamála hvort slík löggjöf sé á leiðinni, t.d. við endurskoðun á grunnskólalögunum núna í vetur.