132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Námsefni framleitt af aðilum utan skólakerfisins.

123. mál
[14:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég legg fyrir hæstv. menntamálaráðherra fyrirspurn að gefnu tilefni. Spurningin hljóðar svo eins og fram kemur á þingskjali sem liggur á borðum þingmanna:

„Telur ráðherra það samrýmast ákvæðum aðalnámskrár grunnskóla um gagnkvæmt traust skóla og foreldra að aðilar utan skólakerfisins framleiði námsefni fyrir grunnskólabörn í skyldunámi eða að börnunum sé boðin þátttaka í umdeildum verkefnum?“

Tilefni fyrirspurnar minnar, virðulegi forseti, er bréf Landsvirkjunar til allra skólastjóra grunnskólanna fyrir skemmstu. Þar er skólastjórnendum boðið upp á það að leggja námsefni, sem Landsvirkjun hannar, fram sem hluta af námsefni fyrir börnin á ólíku aldursskeiði. Í kynningu Landsvirkjunar á verkefninu er tekið fram að námsefnið geti hentað til kennslu á ólíkum námsgreinum innan skóla.

Hæstv. forseti. Þetta tilboð Landsvirkjunar hefur vakið veruleg viðbrögð úti í samfélaginu. Meðal þess sem ritað hefur verið um þetta mál er að finna á Netlu, veftímariti um uppeldi og menntun, sem gefið er út af Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. Þar skrifar Ólafur Páll Jónsson heimspekingur, og að því er ég best veit kennari við Kennaraháskóla Íslands, grein um þetta mál. Hann er afar harðorður í garð Landsvirkjunar fyrir það að fyrirtækið skuli leggja þetta til eins og gert er.

Í fyrsta lagi segir Ólafur Páll Jónsson í grein sinni að það sé ekki hlutverk Landsvirkjunar að búa til námsefni fyrir grunnskóla landsins. Í öðru lagi segir hann að Landsvirkjun eigi ekkert erindi inn í starf grunnskólanna. Í þriðja lagi segir hann að grunnskólar landsins séu ekki vettvangur til að velja börn til þátttöku í mestu og umdeildustu virkjanaframkvæmdum Íslandssögunnar. Í fjórða lagi segir hann að verið sé að nota börnin sem tæki til að vinna hagsmunum Landsvirkjunar brautargengi.

Grein Ólafs Páls Jónssonar á Netlu er afar yfirgripsmikil og fín lesning. Hann vitnar m.a. til aðalnámskrár grunnskóla, í grein sem fjallar um þá frumábyrgð á uppeldi og menntun sem hvíli á foreldrunum og hlut grunnskólans, sem felist einkum í að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og því að taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Það segir í aðalnámskrá að þetta sé sameiginlegt verkefni milli heimila og skóla og kalli á náin tengsl, gagnkvæmt traust, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu. Nú finnst mér þeirri samábyrgð og samvinnu ógnað og spyr hæstv. ráðherra hvort hún sé sama sinnis.