132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Kjarnorkuvinnslustöðin í Sellafield.

170. mál
[14:35]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að í þessu máli er enginn ágreiningur vegna þess að því hefur verið fylgt mjög fast eftir af umhverfisráðherrum okkar Íslendinga í langan tíma og það er vert að rifja það upp að sú barátta hefur skilað góðum árangri. Þess vegna urðu það sérstök vonbrigði og mjög mikið áhyggjuefni þegar fréttir bárust um að málin væru í því ástandi sem raun ber vitni í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield.

Bresk stjórnvöld hafa ekki lokið við gerð skýrslu um atvikið sem átti sér stað þegar um 83 þúsund rúmlítrar af geislavirkum vökva láku úr skemmdu röri í endurvinnslustöðinni í Sellafield. Vinna við gerð skýrslunnar er í höndum The Health and Safety Executive Nuclear Installations Inspectorate og samkvæmt upplýsingum sem fengust frá breska iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu er ekki vitað á þessari stundu hvenær vinnu við gerð skýrslunnar lýkur.

Strax og upplýsingar bárust um atvikið ritaði ég umhverfisráðherra Bretlands, frú Margareth Beckett, bréf og lýsti áhyggjum Íslendinga af ástandi mála í kjarnorkuendurvinnslustöðinni. Jafnframt tók ég málið upp á fundi norrænu umhverfisráðherranna í Illulisat á Grænlandi í ágúst sl. og hvatti til þess að Norðurlöndin stæðu saman eins og þau hafa gert í að þrýsta á bresk stjórnvöld með úrbætur á öryggismálum í endurvinnslustöðinni. Málið verður rætt frekar á fundi norrænu umhverfisráðherranna þann 26. október nk. í Reykjavík. Ísland hefur ásamt hinum Norðurlöndunum ítrekað brýnt fyrir breskum stjórnvöldum þá hættu sem hreinleika Norður-Atlantshafsins stafar af losun geislavirkra efna frá endurvinnslustöðinni í Sellafield. Enn fremur hef ég rætt þessi mál við írska umhverfisráðherrann því það er alveg ljóst að áhyggjur Íra eru af sama toga og okkar hér.

Umhverfisráðuneytið mun áfram fylgjast náið með málinu og þrýsta á um að ráðist verði í fullnægjandi úrbætur. Í bréfi mínu til breska umhverfisráðherrans, sem vísað er til hjá fyrirspyrjanda, eru bresk stjórnvöld eindregið hvött til að taka til athugunar lokun stöðvarinnar séu fullnægjandi úrbætur ekki mögulegar. Ég mun fylgja þessu sjónarmiði eftir ef ástæða verður til en frekari viðbrögð umhverfisráðuneytisins munu m.a. ráðast af þeim upplýsingum sem fram koma í væntanlegri skýrslu breskra stjórnvalda. Ég tel því að það sé alveg augljóst að unnið er mjög markvisst í þessum málum í umhverfisráðuneytinu.