132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Kjarnorkuvinnslustöðin í Sellafield.

170. mál
[14:38]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og geta þess að það verður kannski framhaldssaga hjá hæstv. ráðherra í þessum efnum því ég hef sjálf lagt fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra um vöktun vegna teknesíum-99 í hafinu kringum Ísland þar sem ég kem einmitt inn á stöðina í Sellafield og Dounreay.

Nú er ljóst að bresk stjórnvöld hafa gefið út yfirlýsingu um að það eigi að vera búið að draga marktækt úr útdælingu teknesíum-99 fyrir 2020, svo mikið að þeir segja að þá eigi það ekki að vera merkjanlegt. Þau eru líka búin að gefa út yfirlýsingar um að loka eigi Dounreay-stöðinni eigi síðar en í febrúar 2006, ef ég man rétt. Það er auðvitað eðlilegt að hæstv. umhverfisráðherra brýni stjórnvöld í Bretlandi ásamt með ráðherrum á Norðurlöndum, sem hafa líka látið sig þessi mál skipta. Við verðum auðvitað að halda vöku okkar í þessum efnum og halda áfram að láta bresk stjórnvöld finna og heyra að hér er fylgst með málunum og þau komast ekki upp með neinn slóðaskap í þessum efnum ef ég þekki okkur rétt.