132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Kjarnorkuvinnslustöðin í Sellafield.

170. mál
[14:40]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Því miður er það svo að yfirvöld í Bretlandi hafa komist upp með slóðaskap varðandi starfrækslu Sellafield-kjarnorkuversins. Hvað eftir annað höfum við heyrt fregnir af því að það hefur sloppið út töluvert magn af geislavirkum úrgangsefnum. Jafnvel þótt um sé að ræða efni sem eru af tiltölulega lágu geislastigi miðað við ýmislegt annað þá er þetta mjög óþægilegt. Sérstaklega er þetta slæmt með tilliti til þess efnis sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi áðan, teknesíum-99. Þar er um að ræða efni sem er allt öðruvísi en þau efni sem áður voru notuð þarna. Eyðingartími þess er miklu lengri þannig að efnið mun verða miklu lengur í náttúrunni og við vitum að straumafar er þannig að þau berast að lokum hingað norður eftir og setjast í lífríkið, í fiskinn og það er ekki gott mál.

Ég vildi síðan vekja eftirtekt á því í þessari umræðu að núna eru umræður í breskum fjölmiðlum um möguleg áform breskra stjórnvalda að einkavæða stöðina í Sellafield. Það breytir málinu og verður miklu erfiðra við að eiga ef af þeim áformum verður.