132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Kjarnorkuvinnslustöðin í Sellafield.

170. mál
[14:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin og get tekið undir með hv. þm. Hlyni Hallssyni að Íslendingar ættu að sýna hörð viðbrögð í þessu máli vegna þess að hér liggur mikið undir. Því miður eru nýjar fréttir af þessu máli sem ekki eru ekki mjög upplífgandi. Fyrir tíu dögum birtust í Independent fréttir af því að blaðið hefði undir höndum innanhússskýrslu frá stöðinni og það er miður falleg saga sögð í skýrslunni en þar kemur fram að hún opinberi röð mistaka sem átt hafi sér stað í umræddri stöð, bæði hvað varðar framleiðsluferlið og starfrækslu þess og síðan hvað varðar gæða- og öryggiseftirlit.

Ég óska eftir að hæstv. umhverfisráðherra fari ofan í þessar fréttir og gangi úr skugga um hvort einhver fótur sé fyrir þeim vegna þess að það gerir stöðuna auðvitað enn alvarlegri að þar varð leki síðastliðið vor og síðan berast fréttir af einhverri innanhússskýrslu sem segir að hver mistökin hafi rekið önnur í umræddri starfrækslu í stöðinni. Það er eitthvað sem við Íslendingar, sem nýtum náttúruauðlindir hafsins, getum einfaldlega ekki sætt okkur við.