132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Staða loðnustofnsins.

[15:52]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Frú forseti. Ég tek undir hamingjuóskir til hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, og óska honum velfarnaðar í starfi.

Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir þessa umræðu. Þegar rætt er um loðnustofninn er hann annars vegar mikilvægur sem veiðistofn og hins vegar undirstaða í fæðu þorsksins. Það hefur gerst á 10–12 ára fresti að loðnustofninn hefur farið í lægð en ekki er hægt að tengja skýringarnar við veiðarnar. Hvað varðar flottrollsveiðar á loðnu eru skiptar skoðanir um þær en margir telja að þær geti haft töluverð áhrif á þorskstofninn. Hafró er nú komin með búnað til að mæla þessi áhrif og því er mikilvægt að unnið sé ötullega við þessar rannsóknir svo niðurstöður geti legið fyrir sem fyrst. Að því loknu verði tekin ákvörðun um hvort leyfa eigi flottrollsveiðar á loðnu.

Frú forseti. Hvað varðar sumarloðnuveiðar hefur loðnan haldið sig langt utan við íslenska landgrunnið. Þar af leiðir að mælingar og veiðar hafa ekki verið sem skyldi. Loðnan er því ekki fæða fyrir aðra nytjastofna fyrr en seinast á árinu eða í byrjun árs. Þorskurinn hefur því haft takmarkaðan aðgang að loðnu á undanförnum árum. Ég tel að leyfa eigi veiðar á sumarloðnu en með takmörkunum. Meira eftirlit þarf að vera og loka svæðum þar sem smáloðna fer um. Slík leið er hvað ásættanlegust í dag.

Loðnan er án efa langmikilvægasta fæðutegund þorsks en um 45% fæðunnar sem greinst hefur í þorskmögum er loðna.

Frú forseti. Það er samt sem áður mat Hafrannsóknastofnunar að líklega hafi heildarveiði í loðnu almennt ekki haft áhrif á vöxt og viðgang þorsks á Íslandsmiðum að undanskildum árunum 1978–1981 þegar sumarveiðar voru allt of miklar. Það hefur verið vinnuregla hjá Hafró að þegar mælingar á loðnu liggja fyrir séu 400 þúsund tonn skilin eftir til hrygningar. Hrygningarstofninn hefur frá því á vertíðinni 1992–1993 ávallt verið yfir 400 þúsund tonn og er að meðaltali talað um að 516 þúsund tonn hafi hrygnt, sem eru rúm 25% yfir viðmiðun Hafró.

Virðulegi forseti. Við þurfum að stjórna loðnuveiðum eins og öðrum veiðum. Við erum með ábyrgt fiskveiðistjórnarkerfi og þegar teknar eru ákvarðanir um útgefnar aflaheimildir á lífríkið að njóta vafans. Rannsóknaráætlun liggur fyrir og því mikilvægt að henni verði fylgt eftir.

Á síðasta þingi var samþykkt að loka Þróunarsjóði sjávarútvegsins og nettóandvirði hans, sem gæti verið (Forseti hringir.) í kringum 500 milljónir, skyldi notað til hafrannsókna. Hluti af þeim fjármunum gæti nýst í að fá niðurstöðu í þetta mikilvæga mál.