132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:25]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem upp í pontu til að lýsa stuðningi við það mál sem hér er lagt fram um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Þennan málaflokk er mjög mikilvægt að ræða í hv. Alþingi og vil ég vekja athygli á því í upphafi máls míns að við munum vonandi ræða aðra tillögu síðar í dag, tillögu Frjálslynda flokksins um tryggan lágmarkslífeyri sem gengur í raun og veru út á sömu hugsun og hér er lögð fram að hluta til því að í þingsályktunartillögu þingmanna Samfylkingarinnar segir orðrétt í niðurlagi, með leyfi forseta:

„Auk þessa verði skerðingarhlutföll grunnlífeyris og tekjutryggingar rýmkuð verulega til að auka svigrúm til atvinnuþátttöku.“

Sú tillaga sem hér er um afkomutryggingu lífeyrisþega og að þátttaka almannatrygginga og lífeyrissjóða í afkomutryggingunni verði skoðuð. Þetta er mál sem allir ættu að vera mjög áhugasamir um að lagfæra. Það er auðvitað vegna þess að staða eldri borga í þjóðfélaginu og öryrkja einnig er að mörgu leyti mjög sérstök og hefur þróast á verri veg á undanförnum árum, eins og hér hefur komið fram í máli ræðumanna. Það er því nauðsynlegt að taka á þessum málum í heild sinni. Það er einfaldlega þannig að raungildi bótanna hefur ekki haldist á undanförnum árum, eins og kemur greinilega fram í greinargerð með þessari tillögu, og það liggur fyrir að lífeyrir fólks sem það fær úr almannatryggingum og lífeyrissjóði dugar iðulega ekki fyrir framfærslu.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt sérstaka áherslu á að skoða samtengingu almannatrygginga og almannatryggingabóta og lífeyristekna. Í framhaldi af því skoðuðum við einnig hvernig ellilífeyrisþegar fara út úr því ef þeir hafa ekki lífeyristekjur en þurfa, vegna þess hve slök afkoma þeirra er úr almannatryggingum, jafnvel að stunda vinnu ef þeir fá það eða geta, hlutastarf eða eitthvað, og hvernig þær tekjur skerða svo aftur almannatryggingabætur þeirra. Það verður að segjast eins og er að það fyrirkomulag sem er í gildi hjá okkur býr ekki til þá afkomutryggingu sem dugar eldri borgurum. Það er því algerlega rökrétt að það mál sem þingmenn Samfylkingarinnar leggja hér fram sé skoðað. Þingsályktunartillaga Frjálslynda flokksins, sem vonandi fæst rædd síðar í dag, gengur nákvæmlega út á þá sömu hugsun að tryggja fólki lágmarkslífeyri til þess að lifa af.

Það er auðvitað ljóst, því miður, að kaupmáttur lífeyris úr almannatryggingum hefur ekki haldið raungildi sínu og ekki haldið við þær viðmiðanir sem menn hafa talið nauðsynlegar. Við höfum lengst af gengið út frá því að öllum þegnum landsins væri tryggð lágmarksafkoma en því miður hafa eldri borgarar dregist aftur úr varðandi launaviðmiðun. Það liggur einfaldlega fyrir að um 10–11 þúsund manns lifa á launum undir 110 þús. kr. á mánuði.

Þetta er auðvitað hægt að lagfæra með ýmsum hætti. Við völdum þá leið í Frjálslynda flokknum að stinga upp á að ákveðinn hluti lífeyris skerti ekki bætur. Niðurstaðan yrði þá sú að úr almannatryggingum væri greiddur fullur lífeyrir og síðan lágmarkstekjur til viðbótar sem ekki hefðu áhrif til skerðingar. En eins og allir vita virkar tryggingakerfið þannig að allar tekjur sem fólk hefur skerða bæturnar úr almannatryggingunum með svokallaðri 45% reglu sem segir þá að fyrir hverjar 10 þús. kr. sem fólk fær úr lífeyrissjóði lækka bæturnar hjá Tryggingastofnun um 4.500 kr. Þannig er reglan nema þegar um fjármagnstekjur er að ræða, þá er fyrst deilt í með tveimur og síðan er 45% reglan notuð. Svo kemur auðvitað tekjuskatturinn þar á eftir. Við höfum ekki lagt til að honum væri breytt að því er varðar eldri borgara. Ég sé það ekki heldur í þessari útfærslu Samfylkingarinnar, þar er einfaldlega verið að tryggja að afkoman sé það góð út úr bótunum að það dugi fólki til framfærslu.

Auðvitað spilar þar allt saman, skattkerfið, stefna ríkisstjórnarinnar í þeim málum, fjármunir sem fólk fær út úr almannatryggingum og jafnvel einhverjar aðrar tekjur. Ekki er hægt að ræða þessi mál án þess að víkja örlítið að skattastefnu ríkisstjórnarinnar svo ótrúleg sem hún er. Það er náttúrlega alveg sérstakt þegar ríkisstjórnarflokkarnir hafa tekið sér það fyrir hendur að fjölga skattgreiðendum í neðstu tekjumörkunum en létta skattbyrðina í hæstu tekjuflokkunum, afnema hátekjuskattinn en fjölga ellilífeyrisþegum og öryrkjum sem greiða skatt. Það er stefnan í reynd og það er alveg sama hversu oft menn reyna að snúa sig út úr því í ríkisstjórnarflokkunum. Þetta er reisnin í stefnu þeirra og þýðir ekkert að berja hausnum við steininn með það. Þetta er reisnin.

Það hefur komið fram, m.a. í ræðu fjármálaráðherra, að hann hefur hreykt sér af því að fleiri greiða nú tekjuskatt en áður hefur verið og auðvitað er það vegna þess að það er verið að fjölga skattgreiðendum neðar í tekjuhópunum. Þetta hangir allt saman, óréttlát skattstefna ríkisstjórnarinnar, óréttlát framkvæmd að því er varðar tengingar launa, lífeyris og almannatrygginga og yfirleitt er verið að ganga á hlut þeirrar stéttar eldri borgara og öryrkja. Það er verið að ganga á hlut þess fólks sem, meðan það var á vinnumarkaði og gat unnið, byggði upp þetta velferðarríki sem við köllum svo, Ísland. Ég held að það sé okkur öllum til sóma sem störfum hér á Alþingi að það verði tekist virkilega vel á við það að lagfæra þessa stöðu. Til þess eigum við að leggja saman í stjórnarandstöðunni. Ekki mun af veita eins og stefnan hefur verið.