132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:45]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á eftir að finna þeim orðum sínum stað að kaupmáttaraukning lífeyrisþega hafi verið helmingi minni en launþega almennt. Í svari hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á síðasta þingi við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur á þskj. 1383 kemur fram að lífeyrisgreiðslurnar hafa hækkað meira en launavísitalan sem Hagstofa Íslands reiknar út sem meðalhækkun launa allra landsmanna. Það eru ekki taxtar, það eru laun allra landsmanna. Þau hafa hækkað um 40% og lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun hafa hækkað töluvert meira samkvæmt þessu svari. Ég hef enga ástæðu til að rengja Hagstofuna um að koma með rétta viðmiðun. Hins vegar hafa eldri borgarar notað lægstu laun sem viðmiðun. En það gengur náttúrlega ekki þegar búið er að hækka þau svo ofboðslega mikið. Það var sameiginlegt átak. Þau voru skammarlega lág og eru kannski enn þá of lág.

En það sem menn nefna ekki, og Samtök aldraðra hafa ekki nefnt, er að lífeyrir frá lífeyrissjóðunum hækkar eins og verðlag en ekki eins og laun og þetta er það sem aldraðir sömdu um sjálfir á sínum tíma. Öll útlánin, húsbréfin og allt saman var verðtryggt miðað við verðlag en ekki laun og sá lífeyrir hefur ekki haldið í við laun, að sjálfsögðu ekki þegar launin hækkuðu um 40%. Að því leyti eru aldraðir illa settir en það nefna þeir aldrei nokkurn tíma. Það skyldi þó ekki vera vegna þess að annar forustumanna þeirra var forstöðumaður lífeyrissjóðs í 40 ár og stóð að þessum breytingum?