132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:48]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. „Þjóðfélag getur ekki talist velferðarþjóðfélag nema vel sé búið að öldruðum og öryrkjum og þeim tryggð sómasamleg kjör.“

Svo segir meðal annars í þingsályktunartillögu sem allir þingmenn Samfylkingarinnar flytja um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja.

Þessi orð eru kannski allt of sjaldan sögð úr ræðustól á hinu háa Alþingi og því miður hefur stjórnarmeirihlutinn engan áhuga á að horfa á þennan þjóðfélagshóp og lagfæra hlutina, heldur hefur frá árinu 1995 þegar samstjórn þessara tveggja flokka, sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, hófst haft uppi stórkostlegar árásir á aldraða og skert mjög kjör þeirra.

Í umræddri þingsályktunartillögu eru mjög miklar upplýsingar sem og rökstuðningur fyrir því sem hér er sett fram sem hefur verið farið vel yfir og ég ætla ekki að dvelja við í þeim stutta tíma sem maður hefur til að ræða tillöguna.

Ég ætla hins vegar að taka dæmi úr lífeyriskerfinu. Ég ætla að taka dæmi þar sem rúmlega áttræður einstaklingur fær frá Tryggingastofnun samkvæmt greiðsluseðli — og ég er mjög ánægður með að hv. þm. Pétur Blöndal sé í salnum og hlusti á þetta — 90.534 kr. Þessi einstaklingur hefur misst maka sinn og fær úr lífeyrissjóði rúmar 25 þús. kr. Ríkissjóður hefur fundið þennan einstakling og hirðir af honum í skatt 15 þús. kr. á mánuði. Eftir standa 100 þús. kr. sem viðkomandi hefur til að lifa af og býr í eigin húsnæði. Það væri ánægjulegt ef hv. þm. Pétur Blöndal gæti veitt okkur upplýsingar um hvað það kostar að reka heimili, hvort hægt sé fyrir þennan hundraðþúsundkall að halda heimili og draga fram lífið.

Hv. þingmaður sagði áðan: Ríkið skaffar þeim sem eru á dvalar- eða hjúkrunarheimilum allt. Hvað með þá fjöldamörgu einstaklinga sem hafa þessar 100 þús. kr. og geta sem betur fer enn þá búið í eigin húsnæði úti í bæ? Hvernig eiga þeir að draga fram lífið, hv. þm. Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins?

Ég ætla að halda áfram að taka dæmi um þetta lífeyrissjóðakerfi. Setjum sem svo að viðkomandi hafi átt maka sem var í Lífeyrissjóði verkamanna, ekki opinberra starfsmanna þar sem ríkissjóður hellir inn peningum af og til þegar hann vantar. Lífeyrissjóður verkamanna fór illa á verðbólguárum og brann kannski upp. Fullur makalífeyrir eftir þann mann greiðist í þrjú ár. Helmingur fæst í tvö ár í viðbót og síðan ekki neitt.

Virðulegi forseti. Það er svolítið erfitt að segja þessa hluti þannig að maður skaði ekki neinn en hefði þessi einstaklingur dáið tveimur árum fyrr hefði eftirlifandi maki fengið úr lífeyrissjóði þess sem féll frá. Þetta er það lífeyrissjóðakerfi sem fjölmargir búa við. Þessir lífeyrissjóðir skaffa þær litlu bætur sem ég gerði að umtalsefni. Svo get ég farið yfir í Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna þar sem eftirlifandi maki opinbera starfsmannsins fer með 250–300 þús. kr. út úr því dæmi.

Virðulegi forseti. Það er óþolandi misrétti sem á sér stað í þessu þjóðfélagi. Lífeyrissjóðir eru skyldugir til að breyta reglum sínum ef þeir eiga ekki fyrir reiknuðum skuldbindingum, almennir lífeyrissjóðir sem verkafólk og aðrir borga í. Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna fær framlag frá ríkissjóði til að verðtryggja sig til að geta haldið áfram að greiða út háan lífeyri. Og ég segi: Þetta er óþolandi misrétti.

Nýlega barst mér til eyrna hvernig tryggingakerfið kemur við fjöldamarga, fólk sem lendir í alvarlegum veikindum. Tryggingastofnun tekur þátt í ferðakostnaði eftir einhvern ákveðinn tíma en ég hef séð dæmi þar sem Tryggingastofnun tekur ekki þátt í ferðakostnaði, uppihaldi og öðru slíku hjá maka sem þarf að fylgja með þegar sjúklingur sækir sér læknisþjónustu sem er hvergi annars staðar hægt að fá en í Reykjavík. Það stendur ekki endilega til að veita hana um allt land heldur væri sanngjarnt að skattkerfið kæmi þar á móti. En maður hefur séð dæmi þar sem fjárhagsleg afkoma eftirlifandi maka hefur algjörlega hrunið eftir veikindi vegna þess að viðkomandi hefur þurft að borga flug- og húsnæðiskostnað, bílaleigubíla, uppihald í Reykjavík o.s.frv. Erum við Íslendingar stolt af þessu kerfi? Ég segi nei. Það er einn mesti smánarblettur á þessu landi hvernig við komum fram við aldraða og öryrkja eins og ég hef hér gert að umtalsefni og, eins og ég hef líka gert að umtalsefni, hvernig við komum fram þar sem alvarleg veikindi herja á fólk.

Þetta er sem sagt það þjóðfélag sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa verið að fikta í frá 1995. Þeir hafa verið að taka skatta af þessu fólki, eins og ég tók hér dæmi af, 15 þús. kr. af þeim sem fær þessar smánarbætur sem ég var að tala um áðan. Það er notað til að draga saman útgjöld ríkissjóðs svo að fjármálaráðherra geti komið hingað í upphafi þings og m.a. lýst því hve góð afkoma sé af ríkissjóði og mikill afgangur í þeim glansumbúðum sem settar eru fram en hrynja svo fljótlega, yfirleitt áður en Íslendingar taka upp jólapakkana sína.

Ég dáist að því, virðulegi forseti, að hv. þm. Pétur Blöndal taki stundum þátt í umræðum um þessi mál við okkur jafnaðarmenn. Hann á heiður skilinn fyrir það vegna þess að aðrir sjálfstæðismenn láta ekki sjá sig og eru á flótta frá málinu. Þess vegna held ég að aldraðir og öryrkjar ættu að horfa á setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins í dag þar sem Davíð Oddsson, formaður flokksins, flytur sína síðustu ræðu. Undir forsæti hans frá 1995 hafa tekjur aldraðra og öryrkja verið skertar svo mjög sem við höfum gert að umtalsefni. Aldraðir og öryrkjar ættu líka að hugsa til þess næst þegar hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson kemur í fjölmiðla og talar um þjóðarhag, metafkomu, aukinn kaupmátt o.s.frv. að það er sá ráðherra, formaður Framsóknarflokksins, sem hefur staðið í þeim stórkostlegu skerðingum sem við erum að ræða um og viljum leiðrétta. Það eru 12 þús. kr. á mánuði sem mundu bætast við, 144 þús. kr. á ári, ef þessi tillaga næðist í gegn.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan gefst ekki mikill tími til að fara vandlega í gegnum þetta mál á þeim átta mínútum sem okkur þingmönnum eru ætlaðar til að ræða þingsályktunartillögur en við getum komið aftur. Ég hef þó tekið nokkur dæmi og mér finnst miklu betra að taka svona dæmi og leggja þau fram en að rífast um kaupmátt, hvort hann er í plús 20% eða 30% eins og mér finnst hv. þm. Pétur Blöndal yfirleitt gera þegar við ræðum þessi mál.