132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:00]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn vandi sig í þessari umræðu. Staðreyndin er sú að við höfum búið við mismunandi lífeyriskerfi. Innan opinbera lífeyriskerfisins var það t.d. svo að menn fengu ekki framreiknaðar örorkubætur ef þeir slösuðust eða veiktust utan starfs. Þar var lakari réttur en gerðist innan annarra lífeyrissjóða. Hins vegar er það alveg rétt að lífeyriskerfi opinberra starfsmanna veitti meiri og tryggari réttindi og hefur gert það um langan tíma en gerist á almennum vinnumarkaði. Ég tel það vera keppikefli og baráttumál að bæta þessi réttindi og jafna þessi réttindi upp á við. (Gripið fram í.) Jú, ég hlustaði á hv. þingmann sem varð þess valdandi að ég tók á sprett úr skrifstofu minni til þess að koma í andsvar vegna þess að ég kunni ekki við þann tón sem ég þóttist heyra í ræðu hv. þingmanns.

Ég man líka eftir því að sitja við samningaborð fyrir hönd starfsmanna í opinberri þjónustu í langan tíma þar sem bent var á að kaupkröfur gætu ekki náð fram að ganga vegna þess að réttindin væru svo mikil. Ég tel rétt að horfa á allan pakkann, réttindi og laun. Auðvitað á að horfa á það sem einn pakka en þannig var það að menn guldu þess í langan tíma í launum sínum hve réttindin voru góð. En við skulum ekki gleyma því heldur að þó að þessi lífeyrisréttindi séu betri en hjá þeim sem búið hafa við lökust og allt of lök réttindi þá er það svo um láglaunafólkið og jafnvel meðaltekjufólkið innan raða opinberra starfsmanna að þeir eru ekki of sælir af því sem þeir fá úr lífeyrissjóðum sínum.