132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:10]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann e.t.v. að vera að allt í einu sé kominn samhljómur milli okkar hv. þm. Péturs H. Blöndals hvað varðar mismun á opinberum sjóðum og almennum sjóðum. Vona ég að hv. þingmaður sé sammála mér um þau dæmi sem ég tók áðan og nefndi að það sé óásættanlegt misrétti sem þarna á sér stað. Það er bara svo.

Hins vegar hvað varðar 100 þús. kr. manninn sem ég gerði að umtalsefni þá verð ég aftur ósammála hv. þingmanni. Ég get ekki tekið undir þann málflutning sem hann hefur um 100 þús. kr. launin þó að ég viti að margir hafi það verra með lágmarkslaunin sín og kannski minni vinnu, atvinnuleysisbætur o.s.frv. Ég ætla ekki að fara að karpa um það og get það ekki í stuttu andsvari en ég leyfi mér að efast um það, virðulegi forseti, að hvorki ég né hv. þm. Pétur Blöndal getum lifað af þeim 100 þús. kr. sem þarna er skammtað og það bætir ekki stöðu atvinnulausra og þeirra sem eru með minna en það. Þarna komu rétt um 20 þús. kr. úr lífeyrissjóði vegna þess að lífeyrissjóðsiðgreiðslur viðkomandi einstaklings voru litlar. Þær komu seint inn, e.t.v. var lítil vinna og e.t.v. var viðkomandi heimavinnandi eða án atvinnu stundum sem oft gerðist og þess vegna eru lífeyrisréttindin ekki betri.

Það sem ég tel að gera þurfi, virðulegi forseti, er að bæta kjör þessa fólks, þessa þriðjungs sem er með þær smánarbætur sem þarna eru vegna þess að ég hygg að eftir 10–20 ár verði lífeyrisréttindi flestallra Íslendinga töluvert betri en þau eru í dag og vonandi góð ef tekst að halda lífeyrissjóðunum í góðu horfi og þeir verða ekki fyrir áföllum með fjármuni sína.