132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:27]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki vil ég leggja hv. þm. Pétri Blöndal orð í munn en eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu þá gat ég ekki annað skilið en hann hefði sagt að talsmenn aldraðra hefðu sagt ósatt í málflutningi sínum þegar þeir væru að bera saman tekjutryggingu og slíkt við laun. (Gripið fram í.) Allt í lagi, hann sagði sjálfur, þegar hann kom í pontu, hv. þingmaður, að þeir hefðu verið óheiðarlegir í málflutningi sínum. Við getum alveg látið það sitja eftir að talsmenn aldraðra, að mati hv. þingmanns, séu óheiðarlegir í málflutningi sínum þegar þeir bera saman hækkun lægstu launa og síðan lífeyri. (Gripið fram í.) Það er ekki leiðinlegt að borga skatta. Það er ekki leiðinlegt að borga skatta þegar maður hefur efni á því. En það er leiðinlegt að borga skatta þegar heildartekjur manns eru undir því sem maður þarf fyrir lágmarksframfærslu. Þá er leiðinlegt að borga skatta. Ef maður á ekki fyrir brýnustu lífsnauðsynjum og getur engan veginn látið enda ná saman af þeim bótum sem maður fær, að þurfa þá að greiða skatta, eins og nú er, það er að mínu mati leiðinlegt og lítil ástæða til að gleðjast yfir því.

Hv. þingmaður sagði: Er ekki fínt að lífeyrisþegar borgi skatta af því að lífeyririnn er orðinn svo hár? Snýst málið ekki um það að lífeyririnn fyrir þá sem ekkert hafa nema strípaðar bætur er einfaldlega of lágur? Ef menn eiga ekki fyrir brýnustu lífsnauðsynjum og geta ekki framfleytt sér á þeim bótum sem þeir hafa þá er ekki hægt að koma í pontuna á Alþingi og halda því fram að það sé of hár lífeyrir.