132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri.

[13:33]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi Háskólans á Akureyri fyrir samfélagið á Eyjafjarðarsvæðinu og í rauninni menntun í landinu öllu. Það voru uppi miklar efasemdaraddir þegar skólinn var stofnaður en á þeim árum sem liðin eru hefur tekist svo um munar að sýna fram á mikilvægi háskólans, ekki einungis fyrir menntun og rannsóknir á svæðinu heldur hefur skólinn haft mikil áhrif á landsbyggðinni og verið í fararbroddi í háskólamenntun sem hefur haft áhrif víða í samfélaginu.

Sem dæmi má nefna að fjöldi fagmenntaðra kennara, bæði í grunnskólum sem og í leikskólum, hefur margfaldast á Akureyri og á Norðurlandi og má að verulegu leyti þakka þá þróun útskrifuðum kennurum frá Háskólanum á Akureyri. Sama gildir um aðrar háskólamenntaðar fagstéttir, t.d. hjúkrunarfæðinga. Háskólinn hefur einnig verið í fararbroddi í uppbyggingu fjarnáms sem þjónar öllu landinu.

Skólinn hefur vaxið ört og það er vel. Nám í auðlindadeild og sjávarútvegsfræði var nýmæli í háskóla á Íslandi og upplýsingatæknideildin við háskólann hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og starfar á alþjóðlegum vettvangi. Félagsvísinda- og lagadeild eru í örum vexti og hafa varpað nýrri sýn á þau fög og tengt þau saman á spennandi hátt. Heilbrigðis- og kennaradeildir eru svo fjölmennustu deildirnar.

En nú bregður svo við að stjórnendur skólans hafa séð sig knúna til að ráðast í sársaukafullar sparnaðaraðgerðir eins og þær að innrita ekki nemendur á fyrsta ári í tölvunarfræði í upplýsingatæknideildinni. Sú ákvörðun var eingöngu tekin af fjárhagslegum forsendum og framtíð tölvunarfræðinámsins, sem er framúrskarandi nám, er í mikilli óvissu. Nú blasir mögulega við fækkun kennara og annars starfsfólks verði fjárhagur háskólans ekki bættur verulega. Í haust var brugðist við fjárhagsvanda þessa árs með viðbótarframlagi frá ríkissjóði, sem var gott, en það dugar því miður skammt. Framtíðaruppbygging skólans og vöxtur eru því í hættu verði ekki brugðist skjótt við.

Fjárveitingar til kennslu við Háskólann á Akureyri eru nær eingöngu metnar út frá reiknilíkani menntamálaráðuneytisins. Háskóli Íslands fær sérstaka rannsóknarfjárveitingu og Háskólinn á Akureyri fær fjárveitingu til rannsókna sem nægir aðeins fyrir um helmingi rannsóknarútgjalda. Þetta verður að laga.

Fjárveitingar til kennslu við einkaháskóla eins og Háskólann í Reykjavík eða Viðskiptaháskólann á Bifröst eru samkvæmt reiknilíkani ráðuneytisins, en því til viðbótar hafa þeir skólar heimild til að innheimta skólagjöld sem þeir nota til að fjármagna kennslu og rannsóknir. Eins og kunnugt er eru skólagjöldin endurgreidd af ríkinu í gegnum endurgreiðslur frá LÍN. Því til viðbótar fá einkaskólarnir rannsóknarfjárveitingar frá ríkinu sem eru reyndar stórauknar í nýju fjárlagafrumvarpi.

Fyrir ríkisháskóla sem heyra undir menntamálaráðuneytið er óþolandi að búa við slíkt fjárhagskerfi. Þrátt fyrir mikið aðhald í rekstri hefur Háskólinn á Akureyri verið rekinn með halla síðan 2002. Ef auknar fjárveitingar fást ekki blasir við stöðnun á uppbyggingu skólans og jafnvel að skera þurfi niður þá starfsemi sem fyrir er.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram tillögur um auknar fjárveitingar til Háskólans á Akureyri en þær tillögur hafa því miður verið felldar af stjórnarflokkunum hér á Alþingi.

Ég spyr því menntamálaráðherra:

Er vilji fyrir því innan ráðuneytisins að breyta því reiknilíkani sem nú er unnið eftir við fjárveitingu til háskólanna?

Skólinn hefur verið í mikilli uppbyggingu enda aðsókn að honum ört vaxandi. Fyrir tveimur árum var tekið í notkun nýtt rannsóknarhús við háskólann. Illu heilli var það hús hins vegar byggt sem einkaframkvæmd og leiga á fermetra er um þrisvar sinnum hærri en gengur og gerist á Akureyri og mörgum sinnum hærri en stofnanir háskólans höfðu greitt áður. Það gefur augaleið að ekki er hægt að bregðast við slíkri hækkun með niðurskurði og aðhaldi í rekstri eingöngu. Verulegt aukið fjármagn verður að koma frá ríkinu og ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra:

Af hverju var ekki gert ráð fyrir auknu fjármagni til Háskólans á Akureyri til að koma til móts við stórhækkaða leigu þegar hið einkarekna rannsóknarhús var tekið í notkun?

Uppbygging Háskólans á Akureyri og stofnunum tengdum honum er dæmi um það sem vel má gera á landsbyggðinni og er sambærilegri starfsemi á Ísafirði og á Austurlandi mikil hvatning og gott fordæmi. Mikilvægi háskólasamfélagsins á Akureyri er augljóst fyrir allt landið og því er það einlæg von mín að menntamálaráðherra geri allt sem í hennar valdi stendur til að (Forseti hringir.) efla háskólann og stöðva ekki þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað.

Ein spurning að lokum:

Hver er framtíðarsýn menntamálaráðherra varðandi uppbyggingu Háskólans á Akureyri?