132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri.

[13:45]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka málshefjanda fyrir umræðuna. Það er engin spurning að við viljum öll hag háskólans sem mestan. Hann hefur átt við ákveðna erfiðleika að stríða og ég tel að stjórn skólans hafi komið fram af mikilli ábyrgð varðandi aðhaldsaðgerðir. Hitt er annað að enginn vafi leikur á því að rekstrarumhverfi hans hefur kannski ekki verið svo auðvelt fyrir ungan skóla sem er að vaxa en stjórnvöld hafa komið til móts við skólann og má þar nefna aukafjárveitingu vegna þessa árs þannig að hallarekstur er ekki lengur til staðar og ber að þakka fyrir það.

Við verðum þó áfram að huga að þeim þáttum sem mest vantar upp á en þeir eru nemendafjölgun, húsaleiga og rannsóknir. Það er mikilvægt í þeirri umræðu að tryggja námsframboð til nemenda. Þeir verða að sjá fram á að geta lokið því námi sem þeir hófu á réttum forsendum. Má nefna sem dæmi að nemendur í lögfræði eru orðnir nokkuð uggandi yfir því hvað taki við eftir grunnnámið Allri óvissu um þetta verður að eyða.

Í menntamálaráðuneytinu er verið að vinna að frumvarpi til laga um háskóla. Ég tel mikilvægt að inn í þá umræðu fáum við nákvæman samanburð á íslenskum háskólum sem tekur til fjárveitinga á fjárlögum, tekna af skólagjöldum, tekna af rannsóknum og annarra tekna og framlaga. Þeir listar sem liggja fyrir virðast ekki birta allar þessar upplýsingar og því ekki hægt að meta samkeppnishæfnina til fulls. Styrkir til að mynda frá atvinnulífinu eru mjög mismunandi milli skóla og spurning hvort rekstrarformið bjóði upp á slíka mismunun.

Ég fagna orðum hæstv. menntamálaráðherra um að vinna við endurskoðun á reiknilíkani standi yfir. Samkeppnishæfnin snýst ekki bara um erlendan markað. Hún snýst ekki síst um háskóla erlendis. Við erum að fara í breytingar á lögunum vonandi í vetur og ég vona að okkur lánist að efla sjálfsforræði og ekki síst samkeppnisstöðu okkar ríkisrekna háskóla.