132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri.

[14:01]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þingheimur verði að hafa það hugfast að hér ríkir ákveðin stefna varðandi háskóla og hún er sú að við búum við sjálfstæði háskóla. Það eru háskólarnir sjálfir sem hafa ákveðið svigrúm, ákveðin réttindi til ákvarðanatöku, en þeir hafa líka ákveðna ábyrgð. Þeir þurfa að axla ábyrgð og það hafa þeir gert.

Skólastjórnendur stjórna inntöku nemenda, þeir stjórna kennslutilhögun, vinnumagni, námsframboði og fleiri kostnaðarþáttum í rekstrinum. Í ráðuneyti menntamála höfum við beitt okkur ítrekað fyrir því að hækka fjárveitingar til skólans en raunaukning þeirra frá árinu 2000 fram til ársbyrjunar 2005 er tæp 90%. Sótt var um tæplega 70 millj. kr. raunhækkun í fjárlagafrumvarpi 2004 og aftur 109 millj. kr. í fjárlagafrumvarpi 2005, sem báðar voru samþykktar. Síðan er sótt um 110 millj. kr. aukafjárveitingu í frumvarpinu fyrir 2005. Að auki er rétt að undirstrika að skólinn hefur fengið framlög af safnliðum menntamálaráðuneytisins og nú vinna ráðuneytið og Háskólinn á Akureyri saman að því að rétta af rekstur skólans.

Ég ítreka mikilvægi þess að haldið verði áfram metnaðarfullri uppbyggingu háskólanáms á Akureyri sem víðar um landið og við getum verið mjög bjartsýn með þá framtíð sem er fram undan. Það styrkir að sjálfsögðu byggðina í landinu að efla háskólanám en ekki síður samkeppnisstöðu okkar Íslendinga þegar til lengri tíma er litið.

Við stöndum í dag á ákveðnum tímamótum. Okkur hefur tekist að fjölga háskólanemum svo um munar. Við ætluðum okkur að gera það og við höfum náð því. Við höfum að auki hækkað framlög okkar til háskólamála hraðar en nokkur önnur OECD-þjóð á síðustu árum og því starfi ætlum við að sjálfsögðu að halda áfram um land allt. Nú þurfum við hins vegar, ágætu þingmenn, að leggja aukna áherslu á að fylgja eftir tilteknum gæðakröfum sem gera verður til kennslu og rannsókna innan háskólanna og það verður gert í því frumvarpi sem ég mun leggja fram fyrir hv. Alþingi.