132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:15]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði að samþykktir landsfundar Sjálfstæðisflokksins um málefni aldraðra eins og sú um að aftengja almannatryggingabætur tekjum hafa verið marklaus plögg hingað til því ekki hafa borist hingað í þingsali neinar breytingar í þá veru frá Sjálfstæðisflokknum þó svo að menn hafi verið að samþykkja slíkar ályktanir á landsfundum. Og meðan að svo er þá kalla ég náttúrlega þetta marklaus plögg sem þau vissulega eru. En kannski ætlar hv. þingmaður að sjá til þess að þær ályktanir sem liggja núna fyrir landsfundinum muni skila sér inn í frumvarpsformi frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, ef þeir samþykkja þessar tillögur einu sinni enn. En hingað til hafa þær ekki skilað sér hingað inn.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður bar hér upp við mig þá ætla ég nú ekki að fara að taka þátt í andsvörum vegna ræðunnar sem var haldin í morgun. En mér þætti fróðlegt að vita frá hv. þingmanni hvort hann ætlar að samþykkja þessa ályktun sem Sjálfstæðisflokkurinn er með um aftengingu almannatryggingabóta við lífeyrissjóðsgreiðslur og koma með hana inn í þingið og samþykkja hana. Síðan vildi ég gjarnan fá að vita það frá hv. þingmanni hvort hann hyggist samþykkja það sem ríkisstjórnin áformar, þ.e. að taka bensínstyrkinn af hreyfihömluðum lífeyrisþegum og skerða þannig greiðslur til þeirra um rúmar 8.000 kr. á mánuði. Einnig missa þeir þá þau hlunnindi að þurfa ekki að borga bifreiðagjöldin. Ætlar hv. þingmaður að samþykkja það í þingsölum eftir allt hans tal um bætt kjör til aldraðra?