132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:18]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi nú að hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson hefði svarað ágætlega fyrir sig í umræðunni í morgun og taldi mig ekki hafa neinu við það að bæta.

Varðandi afnám bensínstyrksins þá hefði ég nú haldið að hv. þingmaður hefði átt að að kynna sér það mál því þarna er verið að taka bensínstyrk, rúmar 8.000 kr., af öllum hreyfihömluðum lífeyrisþegum. Það á að taka þá peninga, það á að taka hluta af þeim til þess að hækka tekjutryggingarauka sem rúmlega 300 manns fá frá almannatryggingunum. Bensínstyrkinn, sem allir hreyfihamlaðir með vottorð um að þeir þurfi á bíl að halda til þess að geta komist leiðar sinnar eiga rétt á, á að taka af þeim og um leið missa þeir réttinn til þess að fella niður bifreiðagjöldin. Ég hvet hv. þingmann til þess að kynna sér þetta og ég vil gjarnan fá svar frá honum áður en þessari umræðu okkar í andsvörum lýkur um það hvort hann ætli að samþykkja það því að nú hefur verið boðað þingmál frá hæstv. heilbrigðisráðherra um breytingar á almannatryggingunum í þessa veru þar sem á að svipta stóran hóp fólks þessari upphæð, 8.000 kr. rúmum á mánuði, og það var þá hópurinn, hreyfihamlaðir lífeyrisþegar, sem eru breiðu bökin hjá þessari ríkisstjórn.