132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:34]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýsingu hv. þingmanns um að hann styðji ekki aðförina að hreyfihömluðum og bensínstyrknum til þeirra. Ég trúi því núorðið að ekki sé einu sinni þingmeirihluti á hinu háa Alþingi fyrir þeim tillöguflutningi og treysti því að þau orð muni standa þegar fjárlögin koma til afgreiðslu síðar.

Það stendur ekkert á mér, virðulegur þingmaður, að leggjast á árarnar handan við Vonarstræti þegar kemur að málefnum þeirra sem verst standa. Ég held að sá meiri hluti sem þar situr þurfi ekki að skammast sín í þeim efnum. Við höfum aukið gríðarlega framboð á félagslegu leiguhúsnæði, keypt 100 nýjar íbúðir á hverju ári um langt árabil. Við höfum bætt svo í húsaleigubætur til þeirra sem tekjulægstir eru í þessum hópum að hundruðum milljóna hefur verið aukið við þau framlög frá ári til árs. Við höfum líka veitt verulega afslætti til tekjulágs fólks af fasteignasköttum og hv. þingmaður getur kynnt sér með hvaða hætti ég stóð að hækkunum á framlögum til fólks í fjárhagserfiðleikum hjá Reykjavíkurborg og hækkunum þeirra frá ári til árs þegar ég var formaður félagsmálaráðs Reykjavíkur. Ég vísa því einfaldlega á bug og hv. þingmaður (Gripið fram í.) veit það auðvitað sjálfur að ekki er holur hljómur í málflutningi mínum þegar kjör öryrkja og ellilífeyrisþega eru annars vegar. Ég trúi því og treysti (Gripið fram í.) að í því hafi ég verið samkvæmur sjálfum mér og vona að hv. þingmaður geti haldið ró sinni og hætt frammíköllum sínum.