132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:44]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Tillagan sem hér um ræðir er mjög jákvæð. Samkvæmt henni á að kanna stöðu mála og tryggja að öryrkjar og eldri borgarar hafi mannsæmandi kjör. Maður furðar sig þess vegna á umræðunni sem farið hefur fram í dag, að þeir stjórnarliðar sem þó mæta og taka þátt í umræðunni skuli vera svo viðskotaillir og jafnvel að reyna að drepa umræðunni á dreif. Ég hélt að þetta væri mál sem geti gengið þvert á alla flokka og menn gætu sameinast um að koma þessum hlutum í lag. Menn hafa stært sig af því að við værum ein yngsta þjóð í Evrópu. Við ættum því að geta hugsað þokkalega vel um eldri borgara landsins sem hafa komið okkur á legg.

Nei, það má ekki heldur skal drepa umræðunni á dreif með því að rugla hana. Til dæmis tala menn um fasteignaskatta, að þeir séu allt í einu aðalvandamál eldri borgara í sumum sveitarfélögum. En það er af og frá. Þótt ýmislegt megi segja um hækkun fasteignaverðs þá getur það í ýmsum tilfellum haft jákvæð áhrif fyrir eldra fólk sem minnka við sig húsnæði og getur að einhverju leyti losað peninga. En þetta mál snýst ekki um þann hluta eldri borgara heldur um þá sem hafa verstu kjörin. Hvers vegna geta ekki sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, sem einhvern tíma kenndu sig við samvinnuhugsjón og félagshyggju, rætt þessi mál í alvöru? Hvers vegna er það ekki hægt? Hvers vegna ræða menn ekki um hvernig eigi að leysa þessi mál? Það er ekki gert. Nei, inn á borð okkar kemur fjárlagafrumvarp þar sem eina sparnaðartillagan er að skerða kjör þessa hóps.

Við munum öll eftir svikum hæstv. heilbrigðisráðherra, er hann sveik unga öryrkja um hátt í fimm hundruð milljónir. Hvers vegna getum við ekki snúið þessari umræðu við og tekið saman á þessum málum? Ég held að það sé mikill vilji í þjóðfélaginu til þess. Ég furða mig á því að sjálfstæðismenn vilji ganga til landsfundar í kvöld með það á bakinu að hafa gert lítið úr umræðunni um þá sem verstu kjörin hafa í samfélaginu. Ég held því fram að ójöfnuðurinn í þjóðfélaginu hafi aukist, það er staðreynd. Í svari við fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. fjármálaráðherra um ójafnar tekjur, um svokallaðan Gini-stuðul, kom á daginn að sá ójöfnuður hafði vaxið. Hvers vegna ræða menn það ekki? Pétur H. Blöndal getur þá komið og verið stoltur yfir árangrinum ef honum finnst að þróunin eigi að vera svona. Þannig er hún. Þetta þurfum við að ræða. Ég er á því að tekjuójöfnuður geti skapað ýmis vandamál. Hann mun gera það áður en langt um líður.

Hið sérkennilega við tekjuójöfnuðinn er að hann er ekki vegna þess að hlutur ríkisafskipta hafi minnkað heldur hefur hlutur hins opinbera af þjóðarkökunni stækkað. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur ekki minnkað hlut hins opinbera heldur hefur hið opinbera ráðstafað stærri hluta kökunnar til fárra. Mér finnst það mjög einkennilegt, fyrir svokallaða hægri stjórn eða samvinnustjórn — en ég veit reyndar ekki hvað Framsóknarflokkurinn er núna — að menn ráðstafi fé í gegnum ríkisvaldið til færri aðila, taki meira af þeim sem hafa lítið og ráðstafi stærri hluta til þeirra sem hafa meira.

Annað sem vert er að ræða í þessu sambandi eru skattalækkanir. Þegar menn tala um að orðið hafi skattalækkanir þá eru það algjör öfugmæli. Það hafa ekki orðið neinar skattalækkanir á Íslandi. Það hefur orðið prósentulækkun á einu og hækkun á öðru. Hvernig metur maður hvort skattar hafi verið hækkaðir eða lækkaðir? Það er auðvitað út frá hlut ríkisins og því hvort ríkisútgjöld aukist. Einhver þarf að borga fyrir þetta og það er gert í gegnum skattana. Sjái maður tölurnar í fjárlagafrumvarpinu hækka þá eru skattarnir að hækka. Þeir eru bara teknir annars staðar.

Það er rétt að verið er að lækka hátekjuskattinn en það er sömuleiðis verið að þyngja byrðarnar á þeim sem hafa lágu tekjurnar. Það er eitt af því sem t.d. framsóknarmenn hafa ekki boðað. Þetta eru mál sem þarf að ræða í alvöru. Ég óska eftir því að sjálfstæðismenn komi hér til umræðunnar og ræði þetta af alvöru í stað barnalegra útúrsnúninga og málfundaleikfimi með því að ræða um fasteignaskatta og annað sem kemur málinu ekkert við.

Það kemur málinu við þegar menn spyrja hverjar breytingarnar séu. Hvaða áhrif hafa breytingarnar á ójöfnuðinn í þjóðfélaginu. Þeirri spurningu hefur verið beint til hæstv. fjármálaráðherra. Ég spurði hann: Hver verður ójöfnuðurinn þegar skattbreytingar ríkisstjórnarinnar hafa komið til framkvæmda? Þegar þeirri spurningu er beint til hæstv. fjármálaráðherra er ekki hægt að reikna. Þá stöðvast allar reiknivélar. Þetta er mjög alvarlegt. Við þingmenn sem viljum sjá fyrir okkur framtíðina og hver ójöfnuðurinn verður ættum að krefjast þess að fjármálaráðherra gefi svör um þessa hluti. Það er óþolandi að skattbreytingar séu boðaðar en síðan þurfi menn að þrasa um möguleg eða ómöguleg áhrif.

Það er sérkennilegt að horfa upp á aðgerðir ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að spara. Það eru nokkur hundruð milljónir í ökutækjastyrkjum fyrir aldraða og öryrkja en síðan fara menn að snúa út úr og þrasa um hvort eða hver leggi mestar byrðar á eldri borgarana.

Samt eru til þingmenn í Sjálfstæðisflokknum sem séð hafa í gegnum blekkingarleik ríkisstjórnarinnar. Ég er með grein eftir ágætan sjálfstæðismann sem fletti ofan af umræddum blekkingarleik sjálfstæðismanna sjálfra. Hann skrifaði á þessu ári grein þar sem hann segir að áhrif eignarskattsbreytinga ríkisstjórnarinnar fyrir eldri borgara séu ofmetin. Hann bendir á það með réttu að í landinu séu rúmlega 15 þúsund eldri borgarar sem ekki muni greiða 600 millj. kr. á ári í eignarskatt. Stærsti hluti eldri borgara greiðir ekki eignarskatta. Umræddur sjálfstæðismaður hefur í raun flett ofan af (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokknum og bent á, frú forseti, að málflutningur þeirra sé ótrúverðugur.