132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:14]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að ekki hafa fengist svör hér í umræðunni um hvort það eigi að skerða ökutækjastyrk hreyfihamlaðra. Ætla menn að standa við nýgerða samþykkt landsfundarins eða á að halda áfram? Mér heyrist að hæstv. ráðherrar séu að reyna að drepa málinu á dreif og mér finnst mjög sérkennilegt að verða hér vitni að því að Framsókn nái að beygja Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli. Það er margt sem rökstyður það að þetta mál sé einmitt á höfuðábyrgð Framsóknarflokksins, sérstaklega í ljósi þess að á fimmtudag hafði einn hv. þingmaður í umræðunni um ellilífeyris- og örorkuþega aldrei heyrt minnst á þessa skerðingu á ökutækjastyrknum.

Mér finnst líka vera nóg komið hjá Framsóknarflokknum. Hann hefur gengið hér á undan með slæmu fordæmi á kjörtímabilinu hvað eftir annað. Framsóknarmenn sviku samning við öryrkja sem var gerður í Þjóðmenningarhúsinu, sviku öryrkja þar um 500 milljónir. Svo koma þeir enn og aftur og ætla að taka ökutækjastyrk af hreyfihömluðum til að spara sjö hundruð og eitthvað milljónir.

Við verðum að líta til þess að það er einmitt Framsóknarflokkurinn, reyndar með Sjálfstæðisflokknum, sem hefur blásið út ríkisbáknið, og þá helst utanríkisþjónustuna. Það á hins vegar alltaf að spara á öryrkjum. Mér finnst til skammar og ekki við hæfi að Framsóknarflokkurinn kenni sig við félagshyggju. Það er orðið svo langt komið að meira að segja sjálfstæðismönnum blöskrar hægri stefna Framsóknarflokksins. Hvað á þetta að ganga langt, hæstv. heilbrigðisráðherra?