132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:36]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert þegar maður hlustar á svona ræður að óskhyggjan virðist algerlega ráða ferðinni. Hv. ræðumaður sagði áðan að hann vildi að kaupmáttur launanna héldist. Draga samt úr skuldasöfnun heimilanna og bæta hag útflutningsgreinanna. Bíddu nú við. Hvernig gekk þetta upp? Hvernig í veröldinni átti þetta að gerast? Hann sagði ekkert um það, hann sleppti því.

Það er nefnilega þannig að það er svo einfalt að tala fallega um hlutina en sleppa því alveg að horfast í augu við veruleikann. Ég held það sé nú fyrsta skrefið sem hver og einn ætti að stíga, virðulegi forseti, ef við ætlum að takast á við vandamál okkar, að reyna að horfast í augu við veruleikann.

Við erum með kaupmátt Íslendingar sem hefur þróast þannig að raunlaun hafa hækkað meira en stærð hagkerfisins. Það leiðir til umframeyðslu. Útflutningsgreinarnar geta ekki lifað við svo hátt gengi eins og nú er á Íslandi, það hef ég margsagt, virðulegi forseti, úr þessum stól. Til þess að útflutningsgreinarnar geti staðist og til þess að samkeppnishæfni okkar haldist verður gengið að gefa eftir. Það er óhreinskilni, virðulegi forseti, að vilja ekki segja það sem allir vita og allir sjá og allir kunna. Auðvitað dregur það úr kaupmættinum. Annað er alveg útilokað. Af hverju eru menn, jafnvel hinir bestu menn, að stinga svona höfðinu í sandinn og þykjast ekki sjá það sem allir sjá? Þetta er nauðsynlegt að gera. Þetta mun gerast, virðulegi forseti, fyrr en síðar, en þá á líka að segja það og tala um það.