132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:38]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að reyna að átta mig á því hvað hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson raunverulega átti við. Hann segir að við búum við umframeyðslu. Hann segir að gengið sé of hátt. Hann segir okkur ekki nákvæmlega hvað það er sem hann vilji gera en ásakar mig, og okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, um að horfast ekki í augu við veruleikann. Það erum við sem horfumst einmitt í augu við veruleikann og viljum taka á honum og höfum þess vegna sett fram ítarlegar tillögur um hvernig við eigum að bera okkur að.

Varðandi raunsæið og trúverðugleikann þá var það Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem einn flokka á Alþingi lagði fram raunsæjar tillögur í skattamálum. Ríkisstjórnin er að lækka skatta á Íslandi, sérstaklega á þeim sem standa vel að vígi. Þeir eru sérstaklega teknir og lagðir í bómull. Ríkisstjórnin er að lækka skatta á Íslandi um á milli 20 og 30 milljarða á ári. Síðan bendir stofnun ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar, Seðlabankinn, á það að tekjuafgang ríkissjóðs sé hægt að skýra einvörðungu vegna tímabundinna þensluskatta. Síðan þekkjum við það hvað er að koma inn í ríkissjóð vegna sölu á ríkiseignum.

Við þessar aðstæður, og þetta er tillaga sem við höfum lagt fram, ber að endurskoða áform um skattalækkanir? Er þetta ekki raunsæi? Er þetta ekki tillaga? Er hægt að saka mig og okkur um að setja ekki fram ákveðnar tillögur? Ég nefni aðeins eina. Við erum með margar fleiri. Þegar talað er um kaupmátt þjóðarinnar erum við að sundurgreina þjóðina. Við horfum til öryrkjans og hins atvinnulausa og erum með tillögur um hvernig eigi að vernda og bæta kaupmátt þessara aðila sérstaklega ef fer sem hv. þingmaður talar um að krónan veikist og dregur úr kaupmætti af þeim sökum.