132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[15:41]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður las upp fyrir okkur hver væru meginmarkmið tillögunnar: Að varðveita kaupmáttinn, að draga úr skuldasöfnun heimilanna og að bæta hag útflutningsgreinanna. Ég er aðeins að benda á að þetta gengur hvert gegn öðru. Það gengur algerlega þvert hvert á annað. Ef við bætum hag útflutningsgreinanna og lækkum gengið, eins og verður að gera, og það mun koma að því, mun kaupmáttur Íslendinga rýrna, allra nema öryrkja og eldri borgara því að kjör þeirra eru tryggð í lögum. Þeir munu ekki verða fyrir kjaraskerðingu. Það eru lögin frá 1997, þjóðin öll ætlar að standa undir því. Öryrkjar og eldri borgarar verða ekki fyrir kjaraskerðingu. Allir aðrir verða fyrir kjaraskerðingu, það liggur alveg fyrir.

Og að koma hér upp með tillögu þar sem allt gengur 180 gráður hvert á annað og segja: Við ætlum að bæta hag útflutningsins og varðveita kaupmáttinn. Það vita það allir menn, það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að tala hér út og suður. Auðvitað gengur þetta hvert gegn öðru. Þessi óhreinskilni að þora ekki að segja það að þegar við verðum að bæta stöðu íslenskrar framleiðslu, þá hefur það í för með sér að kaupmáttur rýrnar. Hann gerir það um sinn. Við förum í gegnum ölduna. Það þarf ekki að vera mjög lengi, 1–2 ár kannski, ½ ár, ég veit það ekki, get ekki sagt um það. En við komumst ekki hjá því og þessi hræsni, virðulegi forseti, þessi hræsni að þykjast bæði geta stigið til hægri og vinstri, þykjast bæði geta farið fram og aftur, er náttúrlega blekking ein og ég skil ekki til hvers menn eru að þessu. Það hefur engan tilgang að vera að þessu. Ættu menn ekki að segja hlutina eins og allir vita að þeir eru frekar en vera með þetta fjaðrafok út af engu?