132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:16]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá erum við komin að lokum í þessu máli og þetta er allt saman ljóst. Við erum þá sammála um málið. Þar kom að því. Auðvitað dregur úr kaupmætti á erlendum varningi, ég er að tala um það og það yrði að segja fólki frá því. Auðvitað minnkar þá innflutningurinn og dregur úr einkaneyslunni og auðvitað minnka tekjur ríkisins sem því nemur. Ég fór yfir það í fyrstu fjárlagaumræðunni í síðustu viku og taldi það af hinu góða að gera það. Auka þarf getu, umsvif og möguleika til samkeppni hjá útflutningsgreinunum. Það er óumflýjanlegt. Við getum ekki haldið þessari stefnu áfram, við verðum að hjálpa genginu til að ná jafnvægi. Við erum meira og minna sammála um þetta, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og ég fagna því.

Í þingsályktunartillögunni stendur að verja eigi kaupmáttinn og ég las það þannig. Ég gerði athugasemdir við það. Þeir hafa bara ekki skrifað það nógu skýrt í textann að auðvitað fylgdi með að kaupmáttur erlends varnings færi niður. Þeir gerðu það ekki og ég gerði athugasemdir við það, en ef þeir hafa meint annað, meint það sama og ég segi, þá skulum við ekki eyða tíma í að rífast. Þá erum við bara sammála.