132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:20]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég las þetta bara eins og það stóð. Hér stendur: „Stöðugleiki haldist á vinnumarkaði og kaupmáttur launa verði varðveittur.“ Ég gagnrýndi það. Ég sagði að þetta væri óraunhæft, þetta væri ekki hægt. Ég gagnrýndi ekkert annað. Ég sagði að þetta markmið gengi ekki upp.

Það er alveg hárrétt, virðulegi forseti, hjá hv. þingmanni að auðvitað á að reyna að verja kaupmáttinn eins og mögulegt er. Ég er alveg sammála honum um það, nákvæmlega. Ég er líka sammála honum um að það er glannalegt að halda þessari vegferð áfram vegna þess að ef við reisum krónuna enn þá meira, ef við lendum í þeirri ógæfu að það komi eins og sagt er „run“ í gengið, þ.e. að það falli, þá getur það fallið miklu meira en það þarf til að ná jafnvægi. Þá fyrst erum við í vondum málum. Þá gæti samstaðan á vinnumarkaði brotnað upp og ég hef áður sagt í þessum ræðustól að ég þekki engan sem kann að líma hana saman. Mér sýnist hv. þingmaður vera mér ótrúlega mikið sammála um það og ég fagna því, virðulegi forseti, að svo sé. Þetta er viðfangsefnið. Við munum reyna að verja kaupmáttinn eins og við getum en við megum ekki segja að við getum varðveitt hann í heild sinni. Það er ekki hægt. Einkaneyslan hlýtur að fara niður vegna þess að kaupmátturinn í erlendum varningi hlýtur að fara niður. Við getum varið hann og í núgildandi lögum er vörn fyrir kaupmátt öryrkja. Það segir svo í lögum um almannatryggingar. Það er líka vörn fyrir kaupmátt ellilífeyrisþega. Við skulum athuga hvort verja þarf eitthvað fleira en við skulum reyna að gera það þannig að rýrnunin verði sem minnst. Því fyrr því betra, en við getum aldrei varið kaupmáttinn.

Ég fagna því aftur að við skulum vera svo innilega sammála sem raun ber vitni.