132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

5. mál
[16:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst slæmt þegar hv. þingmaður sem hefur gengið hart fram og sakað aðra um tvískinnungshátt og að tala ekki hreint út um hlutina, t.d. að ekki sé hægt að ná fram markmiðum sem koma fram í þingsályktunartillögunni sem hér er til umræðu, svarar því ekki hvort Seðlabankinn eigi að falla frá vaxtastefnu sinni sem mun þá leiða til verðbólgu. Eigum við að sætta okkur við hana?

Það er nokkuð ljóst að ef Seðlabankinn lækkaði vextina leiddi það til þess að gengið mundi ekki bara síga heldur mjög líklega hrapa. Fjárstreymið sem nú kemur inn, um 80 milljarðar á nokkrum vikum, hefur leitt til þess að gengi krónunnar hefur risið mjög hratt og ef það fjárstreymi hættir er hætt við að gengi krónunnar muni ekki síga heldur hrapa og leiða til verðbólgu. Er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að segja að við eigum að sætta okkur við verðbólgu í einhvern ákveðinn tíma?

Nú veit ég að í Seðlabankann er að koma maður að nafni Davíð Oddsson og ég hef þá trú að þeir séu að einhverju leyti sammála um vaxtastefnuna og að þar muni því verða veruleg breyting á. Það væri fróðlegt að heyra það hjá hv. þingmanni hvort hann vænti þess að veruleg breyting verði á vaxtastefnu Seðlabankans við þessi mannaskipti í Seðlabankanum.