132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[17:17]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér kjör lífeyrisþega þriðja eða fjórða daginn í röð, held ég, frá því að þing kom saman 1. október. Nú er það þingsályktunartillaga frá hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins um tryggan lágmarkslífeyri. Fyrir helgi ræddum við um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja frá Samfylkingunni og daginn áður, síðasta miðvikudag, ræddum við um kjör aldraðra í utandagskrárumræðu.

Þetta segir nokkuð um stöðu þessa hóps, hve nauðsynlegt við teljum að tekið sé á kjörum hans. Það hefur verið ánægjulegt að hlýða á umræður í þingsalnum, sérstaklega í ljósi þess að stjórnarandstaðan er sammála okkur um nauðsyn þess að tekið sé á þessum málaflokki. Ég vonast til þess að þegar umrædd þingmál verða komin til heilbrigðis- og trygginganefndar, þar sem ég á sæti, verði þau tekin til afgreiðslu og komist aftur inn í þingið, þ.e. þingsályktunartillögurnar frá Samfylkingunni og frá Frjálslynda flokknum. Það er full ástæða til að þessi mál fari lengra en bara inn í heilbrigðis- og trygginganefndina.

Það er auðvitað hægt að tala mikið og lengi um stöðuna í þessum málum. Mig langar að byrja á því, af því að við vorum að tala um þá tillögu ríkisstjórnarinnar að skerða réttindi ákveðins hóps lífeyrisþega í fjárlagafrumvarpinu, að ræða ályktun frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þar er eina ferðina enn komin fram ályktun, og hefur verið samþykkt, um að afnema tekjutengingu grunnlífeyris. Ég verð að segja að sem jafnaðarmaður þá finnst mér það ekki vera forgangsmál að afnema tekjutengingu á grunnlífeyri. Það væri nær að hækka aðra bótaflokka elli- og örorkulífeyris. En hinir bótaflokkarnir, tekjutryggingin, heimilisuppbótin, tekjutryggingaraukinn, eru fyrir þá sem hafa minna, þannig að nær væri að fara þá leið. En við þurfum líklega ekki að hafa miklar áhyggjur af þessum ályktunum því að þær hafa nú yfirleitt ekki skilað sér sem neinar tillögur hér inn í þingið. Þetta er meira svona til að látast við þennan hóp þegar Sjálfstæðisflokkurinn kemur saman á landsfundum sínum.

En ég held að umræðan hér og þessi þingmál segi okkur að það er orðið mjög brýnt að endurskoða almannatryggingalögin og lögin um félagslega aðstoð og færa þau til nútímans. Þessi lög eru að grunni til frá 1971, eins og menn þekkja, og hafa ekki verið endurskoðuð í heild síðan þá. Það er því orðið mjög brýnt að tekið verði á þeim.

Í þingmáli Samfylkingarinnar um afkomutryggingu fyrir aldraða og öryrkja er lagt til sem fyrsta skref að grunnlífeyrir og tekjutrygging verði sem næst lágmarksframfærslu eins og hún verði skilgreind í samræmi við neysluútgjöld lífeyrisþega. Við leggjum einnig til að þegar afkomutryggingin verður tekin upp verði raungildi grunnlífeyris og tekjutryggingar ekki lægra en það var á árinu 1995. Menn hafa reiknað það út að þarna vanti upp á 12 þús. kr. á mánuði, en eldri borgarar hafa reiknað þetta út upp á 17 þús. kr., það fer eftir því hvernig þeim útreikningum er hagað. En það er alveg ljóst að þarna vantar heilmikið upp á.

Við leggjum einnig til að skerðingarhlutföll bæði grunnlífeyris og tekjutryggingar verði rýmkuð þannig að lífeyrisþegar geti í auknum mæli farið út á vinnumarkaðinn. Það hefur sýnt sig að þessar reglur, eins og þær eru núna, koma í veg fyrir að lífeyrisþegar fari út á vinnumarkaðinn eða afli sér nokkurra tekna til viðbótar við lífeyri vegna þess að það skilar mjög litlu í vasa lífeyrisþega þegar upp er staðið. Við vitum líka að þátttaka í atvinnulífinu er mörgum mjög mikilvæg og þar vil ég nú sérstaklega tala um karla, ég þekki að þeir eigi mjög erfitt með að hætta algjörlega atvinnuþátttöku þegar ellilífeyrisaldri er náð.

Varðandi þingmál hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar og félaga hans í Frjálslynda flokknum þá er það rétt, eins og kom fram í umræðunni áðan, að það eru örugglega að mestu leyti konur sem munu hagnast verulega á því vegna þess að mjög margar konur eiga lítinn sem engan rétt í lífeyrissjóðum. Margar af þeim konum sem nú eru komnar á ellilífeyri hafa ekki verið úti á vinnumarkaðnum, hafa verið heimavinnandi húsmæður. Það má einnig nefna bændur, eins og gert var áðan, ég veit að þeir eru margir illa staddir hvað varðar greiðslur úr lífeyrissjóði.

Svo er náttúrlega annar hópur sem við skulum ekki gleyma og það eru öryrkjar sem aldrei hafa farið út á vinnumarkaðinn, þeir eiga lítinn sem engan rétt á lífeyri úr lífeyrissjóðum. Kjör þessa fólks þarf auðvitað að bæta verulega og það er einmitt tekið á því í báðum þessum þingmálum.

Það þarf líka að skoða það sem er að gerast núna fyrst á síðustu árum, það er að öryrkjarnir sem verða ellilífeyrisþegar skerðast mjög í tekjum við það að verða 67 ára. Það er ótrúlegt að hlusta á þá öryrkja sem hafa lent í þessu undanfarið, hvað þetta kemur þeim á óvart. Áður voru þetta ekki nema þúsund krónur sem lífeyririnn lækkaði ef menn voru nánast eingöngu á almannatryggingagreiðslunum en nú er þetta orðið miklu meira högg. Ég þarf ekki annað en að vísa í bréf frá fullorðinni konu sem skrifaði þáttastjórnendum í útvarpi um þessa reynslu sína og mikið hefur verið vitnað í. Þar kemur hún inn á það hversu illa hún var stödd eftir að hún náði ellilífeyrisaldri. Hún taldi sig í raun ekki hafa efni á því að verða ellilífeyrisþegi. Hún taldi sig verða að halda áfram í því starfi sem hún var í þar sem hún hefði ekki í sig eða á af þeim greiðslum sem hún fengi eftir að hún náði 67 ára aldri. En þessi kona var öryrki og hafði þó nokkuð mikinn kostnað af heilsufari sínu. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég sé að tíma mínum er lokið. Ég hefði getað talað mun lengur um þessa hluti en ég vonast til að málið verði afgreitt úr heilbrigðis- og trygginganefnd þegar það kemur þangað.