132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[17:56]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er langt frá því að ég hafi komið hér og haldið því fram að þær reglur sem við erum með í dag séu þær reglur sem við endilega eigum að hafa. Það er langt í frá. Ég tók einmitt fram að við þyrftum að skoða þetta mjög vel með tilliti til þess að reyna að varðveita skattstofninn til þess að auka tekjur ríkisins í heild. Við megum samt ekki gleyma hinu sem ég sagði áðan og ég endurtek það aftur og aftur: Við megum ekki gleyma þeim sem geta ekki bjargað sér, við verðum að hugsa um þá. Það er fullt af fólki sem er á þeim aldri og með þá heilsu að hafa enga aðra möguleika, við megum ekki tvíreikna skerðinguna vegna þess að tekjutryggingin er handa þeim sem ekki geta bjargað sér. Það er því villandi þegar menn finna út þessi 85%, þá erum við bara að tvítelja skerðinguna.

Ég tók það fram áðan, virðulegi forseti, að auðvitað kæmi til greina að við færum í gegnum þetta mál í heild sinni og veltum því fyrir okkur í heild. Það væri ekkert sem væri heilagt í því í sjálfu sér, alls ekkert. Ég hélt því alls ekki fram að við værum endilega með lausn og kannski kunnum við ekki að vera með neina heildarlausn. Við eigum að leitast við að ná sátt um þetta sem flestir geta unað við og gæta þess líka um leið að fólk hafi vilja til að vinna því að þannig varðveitum við skattana. Við megum aldrei gleyma því að ríkið verður að geta borgað þær bætur sem það vill borga. Það er aðalatriðið. Auðvitað skulum við skoða kerfið í heild, lífeyrissjóðina, tryggingakerfið og skattkerfið. Ég tók aldrei annað fram.