132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[17:59]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti yfir áhyggjum með að sumir væru ekki á háum launum hér í þjóðfélaginu og ég get verið honum sammála hvað það varðar. Deilir hann þá ekki því sjónarmiði með okkur í Frjálslynda flokknum og Guðmundi H. Garðarssyni að þessi skattlagning á lágu tekjurnar sé e.t.v. komin út í öfgar hjá ríkisstjórninni? Það væri fróðlegt að fá svar við því, en það er sífellt verið að færa skattbyrðina meira og meira á þá sem hafa lágu launin.

Síðan er vert að vekja athygli á því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti um helgina tillögu í sömu átt og við í Frjálslynda flokknum flytjum hér nema hvað hún gengur lengra, hún gengur miklu lengra en sú sem við erum að ræða. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi stutt þá tillögu og hvort sjálfstæðismenn hafi ekki lent í ákveðnum vandræðum þegar þeir komu með tillögurnar af landsfundinum hingað til þingflokksins og séu einfaldlega ekki tilbúnir að fallast á þetta. Við vorum einmitt að ræða hér annað mál sem skiptir miklu máli í dag, þ.e. að afnema bensínstyrk til hreyfihamlaðra. Það kom upp úr dúrnum að framsóknarmenn voru hugmyndasmiðirnir á bak við þá tillögu. Ég trúi því að hv. þingmaður hafi samþykkt þessa landsfundartillögu sem gengur lengra en sú tillaga sem við í Frjálslynda flokknum flytjum hér. Það væri fróðlegt að fá að heyra hvort hv. þingmaður hafi samþykkt þessa tillögu og hvort hann geti þá ekki samþykkt þá tillögu einnig sem við ræðum hér nú.