132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar.

[13:35]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að vekja athygli okkar á þessari skýrslu því að hún er afskaplega jákvæð. Ríkisstjórnin fær mikið hrós í henni fyrir tök sín á efnahags- og ríkisfjármálunum á undanförnum árum og fyrir það hversu sterk staða ríkissjóðs er. Ríkisstjórnin fær meira að segja sérstakt lof í þessari skýrslu fyrir einkavæðingu Símans, hvernig að henni var staðið og hvernig ráðstöfun þeirra fjármuna verður háttað.

Hins vegar eru gerðar tilteknar athugasemdir við skattalækkanir og útgjöld í fjárlagafrumvarpinu. Þær forsendur sem þar er byggt á eru þannig úr garði gerðar að þær gera ráð fyrir miklum mun minna aðhaldi á yfirstandandi ári en verður raunin. Gert er ráð fyrir því að afgangur ríkissjóðs á þessu ári verði 1,4% af landsframleiðslu í staðinn fyrir 2,8% sem verður raunin þannig að það tekur ekki tillit til þess sem kemur fram í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins að hápunktur framkvæmdanna fyrir austan og hápunktur þenslunnar hefur færst fram frá því sem áður var. Ég tel að þessar athugasemdir þeirra eigi ekki eins vel við í dag og þær hefðu hugsanlega átt við fyrr vegna þess að draga fer úr hagvextinum og hann verður kominn væntanlega niður í 2,5% á árinu 2007. Þess vegna eru skattalækkanirnar vel tímasettar með tilliti til þess.

Eins getur líka haft jákvæð áhrif að á tímum þenslu og eftirspurnar hafa skattalækkanir jákvæð áhrif til þess að auka framboð á vinnuafli og þar með draga úr þenslunni á vinnumarkaðnum.