132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Náttúruvernd.

180. mál
[14:57]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44 frá 1999, sem fjallar um eldri námur. Mig langar að koma inn á örfá atriði varðandi frumvarpið. Ég vil taka undir þakkir þeirra þingmanna sem hafa talað á undan um hversu fljótt frumvarpið er komið fram, en minna má á að málið lá fyrir þinginu í fyrravetur og fyrir hv. umhverfisnefnd. Það hefur því fengið mikinn og góðan undirbúning og þess vegna ættum við að hafa gott tækifæri til að fara yfir málið nú í vetur.

Það sem ég vil benda á og held að nefndin ætti að fara vandlega yfir eru þau stærðarmörk sem hér hafa verið nefnd. Það eru annars vegar þeir 25 þúsund fermetrar sem þingmenn hafa verið að tala um og svo þessir 50 þúsund rúmmetrar sem hafa farið svolítið á milli flokka, en hvað um það. Það eru þær stærðareiningar sem ég tel að við þurfum að fara betur ofan í og er ekki nákvæmlega sannfærður um að séu réttar einingar.

Ég vil minna á að með frumvarpinu fylgir umsögn fjármálaráðuneytisins. Í þeirri umsögn kemur fram að það séu 100 námur sem muni falla undir þessi lög og má benda á að ef þessar námur færu allar í umhverfismat getur umhverfismat verið á bilinu frá 1–3 og allt upp í 10 millj. kr. á hverja námu.

Þegar við fögnum því að það skuli hafa verið hagsmunasamtök eða reyndar aðilar frá áhugamannahópum sem hafi starfað í nefndinni þá eru það einungis aðilar frá Vegagerðinni sem eru notendur að þessum námum og hafa verið í starfshópnum, en ekki námurétthafar eða eigendur náma. Ég held að þetta sé sá þáttur sem við þurfum að fara svolítið yfir í hv. umhverfisnefnd.