132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Skipun ráðuneytisstjóra og annarra embættismanna Stjórnarráðsins.

10. mál
[15:21]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þingmaður Samfylkingarinnar, Rannveig Guðmundsdóttir, hefur gert ágæta grein fyrir inntaki þingsályktunartillögu okkar og þeim rökum sem þar liggja að baki. Ég þarf í sjálfu sér ekki að fara um það mörgum orðum. Þó vil ég nefna að ég tel það skipta verulegu máli, bæði fyrir stjórnsýsluna sem og fyrir það fólk sem hefur hugsað sér að sækja um störf í stjórnsýslunni, að það liggi algjörlega ljóst fyrir hvaða störf er ráðið í einvörðungu á grundvelli faglegrar, hlutlægrar hæfni og þekkingar og í hvaða störf er ráðið á grundvelli faglegrar hæfni en ekki síður vegna pólitískra verðleika, skulum við segja. Pólitík fylgja vissulega ákveðnir verðleikar, ákveðin þekking og ákveðin reynsla. Því er mjög skiljanlegt að ráðherrar vilji hafa með sér inn í ráðuneyti sín einhverja sem eru sömu pólitískrar skoðunar og þeir en jafnframt með faglega hæfni til að aðstoðað ráðherra við að koma málum fljótt og vel í framkvæmd. Það er eðlilegt og við skulum bara horfast í augu við það.

Þá er líka eðlilegt að skilgreina þau störf sem þannig eru hugsuð svo að fólk sé ekki dregið á asnaeyrunum og því boðið upp í dans eins og þetta séu opnar stöður sem einvörðungu sé valið í á grundvelli faglegrar hæfni og látið sem þær séu öllum opnar þegar raunin er sú að þannig er því alls ekki farið. Þess vegna er mikilvægt að þetta sé skilgreint, þ.e. hvaða stöður eru pólitískar stöður og þá ráði ráðherrann í þær, jafnvel án auglýsingar. Það þarf ekki að auglýsa þær stöður. En hins vegar væri ljóst hvaða stöður lúta algjörlega faglegu hæfnismati og standa öllum opnar sem um þær vilja sækja. Það er mikilvægt, virðulegur forseti, að þetta sé gert vegna þess að við höfum orðið vitni að því æ ofan í æ að ráðnir hafi verið einstaklingar, m.a. í ráðuneytisstjórastöður eða aðrar stjórnunarstöður í ríkiskerfinu, vegna þess að fyrir fram hafi verið ákveðið að ráða þá einstaklinga meðan aðrir sem sóttu um komu aldrei til greina.

Hægt væri að nefna mörg dæmi í þessu sambandi. Þegar ég nefni þau dæmi sem ég ætla að gera hér þá er það ekki vegna þess að ég vilji með einhverjum hætti vanvirða það fólk sem ráðið var í stöðurnar, það er fólk sem vissulega hefur hæfni og þekkingu og reynslu til að bera, en það verður ekki endilega sagt að gengið hafi verið úr skugga um að þeir væru hinir hæfustu sem völ var á í viðkomandi embætti. Mér dettur í hug, þegar ég stend hér í ræðustól, hæstv. forseti, að það nægir í sjálfu sér að nefna seðlabankastjórastöðurnar. Það vill svo til með þær að þær eru ekki auglýstar þannig að þar véla bara tveir um, sá sem ræður og sá sem ráðinn er. Sú ráðning lýtur ekki öðru eftirliti en þeirra tveggja einstaklinga.

Ég get líka nefnt ráðuneytisstjórastöður. Það er ekki langt síðan að ráðið var í ráðuneytisstjórastöðu í sjávarútvegsráðuneytinu. Þar varð fyrir valinu ágætur hæfur maður sem hafði þá verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins um langt árabil en komst ekki inn á þing í síðustu kosningum. Hann var ráðinn í ráðuneytisstjórastöðu þar. Það er hæfur einstaklingur, ágætur maður og ekkert við því að segja. En spurningin er: Var þetta pólitísk ráðning eða fagleg ráðning? Um það er efinn. Það er hvorki þeim sem ráðinn er, þeim sem sækja um eða hinu opinbera kerfi til hagsbóta að vafi leiki á því.

Ég get nefnt annað dæmi, vegna þess að þar var í sjálfu sér ekki tekist á um pólitík heldur um hæfni, þ.e. þegar ráðið var í ráðuneytisstjórastöðu í félagsmálaráðuneytinu. Það mál fór til umboðsmanns Alþingis, sem er náttúrlega sá farvegur sem fólk hefur ef það telur að á rétti sínum sé brotið þegar það sækir um slíka stöðu. Síðan eru liðnir 14 mánuðir og enn liggur ekki niðurstaða fyrir í málinu. Fólki sem sækir um slíkar stöður og fær þær ekki en telur á rétti sínum brotið býðst því varla neitt kæruferli vegna þess að það tekur svo langan tíma. Þegar niðurstaðan kemur er jafnvel ekkert hægt að gera með hana.

Ég nefni þetta í dæmaskyni, virðulegur forseti, og auðvitað væri hægt að nefna fleiri dæmi. En mig langar í lokin að geta þess aðeins hvernig þessum málum er fyrir komið í Bretlandi. Framsögumaður þessa máls og fyrsti flutningsmaður, Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði grein fyrir því hvernig þessu er háttað í Noregi og Svíþjóð. Í Bretlandi var sett nokkuð víðtæk löggjöf á árinu 1995. Af því að menn halda alltaf að þegar við tölum um Bretland séum við að vísa í Blair og það sem hann hefur gott gert, sem er auðvitað ótalmargt, þá bendi ég á að það er fyrir daga Blairs sem þessar samþykktir eru gerðar. Þær eru frá 1995. Þær eru annars vegar um hvernig standa eigi að ráðningu fólks í opinbera þjónustu, ráða fólk í opinber embætti, og hins vegar hvernig eigi að standa að því að velja fólk til setu í stjórnum, nefndum og ráðum sem ráðherra skipar í.

Þetta mundi t.d. eiga við um ráðningar í störf í ráðuneytum. Hins vegar mundi þetta eiga við þegar fólk væri skipað til setu í stjórn Landsvirkjunar eða í stjórn Símans, eins og var áður, þar sem ráðherra einn fór með skipunarvaldið. Þar lýtur það skipunarvald ákveðnu eftirliti. Það þarf rökstuðning fyrir því af hverju tilteknir einstaklingar eru skipaðir í viðkomandi stjórnir en ekki aðrir. Hvað hafa þeir til brunns að bera sem eftir er leitað í viðkomandi stjórnum annað en að ráðherrar hafi pólitíska velþóknun á þeim? Þegar ráðherra er kominn með þetta skipunarvald, í nefndir og ráð og stjórnir, þá er framkvæmdarvaldið þar að verki og þá á ekki að vera um pólitískar skipanir að ræða.

Þegar Alþingi kýs vita allir að um er að ræða pólitíska kosningu en þegar ráðherrann skipar er það ekki svo og það á ekki að lúta pólitískum lögmálum heldur faglegum. Það er full ástæða til að benda á hvernig menn fara með þetta í Bretlandi. Þeir hafa búið til verkferla í kringum þetta til að tryggja gegnsæið, tryggja jafnræðið og tryggja að allir sitji við sama borð — tryggja að stjórnsýslan fái það hæfasta fólk sem völ er á hverju sinni í opinber embætti. Þegar um pólitísk embætti er að ræða lýtur það einfaldlega öðrum lögmálum og þess vegna á að skilgreina þau embætti sérstaklega þannig að fólk sé ekki dregið á asnaeyrum þegar að slíkum ráðningum kemur.