132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[18:14]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka að þessi umræða á fullan rétt á sér. Ég sá það í Bændablaðinu fyrir ekki svo löngu að skorður eru reistar í Danmörku við því að menn geti verið að safna jörðum vegna þess að menn líta þar svo á, í því þéttbýla landi þó, að mikils virði sé að halda bújörðum í byggð. Þess vegna tel ég að hv. formaður landbúnaðarnefndar, sem mun flytja ræðu á eftir, ætti að endurskoða sitt mál.

Ég vil ítreka að mér finnst þetta 1% vera fullhátt, sérstaklega í ljósi þess að það skiptir svo miklu máli að friður sé um þetta kerfi og að þeir sem borgi slíkar beingreiðslur, skattgreiðendur, skynji að þetta fari í það að halda byggð í landinu. Ég er á því að það sé einmitt almennur vilji meðal skattborgara í Reykjavík að þessar greiðslur fari til þess en renni ekki til einhverra stórbúa. Það tel ég að endi með ósköpum. Ég er á því að bændur sjái einmitt þessa hættu að þegar beingreiðslur fara á einn stað, segjum eins og þetta frumvarp getur mögulega gert ráð fyrir, tugi milljóna á einn stað, komi upp þær raddir hjá skattgreiðendum í landinu: Hingað og ekki lengra. Við viljum líka fá hagræðingu sem verður á stórbúunum og viljum þá mögulega minnka greiðslur til landbúnaðarins.

Ég tel að menn eigi að skoða þetta og ræða þetta í fullri alvöru, frú forseti.