132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Jöfnun flutningskostnaðar.

107. mál
[14:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn heldur áfram að stuðla að hækkun flutningsgjalda með aukinni skattheimtu eins og sífellt er að koma fram. Nægir þar að benda á að fyrir um það bil tveimur árum hækkaði hæstv. ríkisstjórn þungaskattinn um 8% til að undirbúa frekari upptöku olíugjalds. Það fór auðvitað þráðbeint út í verðlagið. Í sumar var tekið upp olíugjald í staðinn fyrir þungaskattinn og með því fylgdi líka áfram þungaskattur á ákveðinn hátt á stærri bíla, þ.e. flutningabíla. Þetta hefur haft í för með sér hækkun líka, töluvert mikla hækkun sem líka hefur farið út í verðlagið og er sennilega enn á leiðinni þangað. Svo er hátt olíuverð með töluverðri skattheimtu til ríkissjóðs af þessu í formi virðisaukaskatts. Allt leiðir þetta til þess sama, þ.e. að hækka enn frekar þegar allt of há flutningsgjöld.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að talið er að a.m.k. helmingur flutningsgjaldanna sé skattur sem rennur beint til ríkissjóðs. Þannig hefur þetta verið. Ég bendi á að hæstv. ráðherra sagði í þingræðu að upptaka olíugjalds mundi hafa þessar afleiðingar í för með sér, þ.e. íþyngja atvinnurekstri á landsbyggðinni.

Haustið 2001 var þetta rætt í ríkisstjórn, þ.e. hinn síhækkandi flutningskostnaður sem var að sliga atvinnurekstur og skekkja mjög verulega samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu og auka erfiðleika þeirra vegna þessa. Þetta var sem sagt rætt í ríkisstjórn fyrir fjórum árum ef ekki er lengra síðan.

Í framhaldi af því lét samgönguráðuneytið, hæstv. samgönguráðherra, vinna skýrslu um þetta mál sem tók 15 mánuði þar sem ekkert nýtt kom í raun fram heldur staðfesti bara það sem menn hafa áður sagt. Síðan var þetta töluvert mikið rætt fyrir alþingiskosningarnar 2003 og þá einkanlega kannski mest af hæstv. iðnaðarráðherra þar sem boðaðar voru aðgerðir til þess að sporna gegn þessum hækkunum og til að lækka. Ríkisstjórnin sendi þessa skýrslu og beiðni til Byggðastofnunar með ósk um að þeir skoðuðu þetta og Byggðastofnun var látin skila tillögum til ríkisstjórnar og þar var þetta rætt líka.

Virðulegi forseti. Hér hef ég farið stuttlega yfir sögu fjögurra, fimm ára þar sem ekkert gerist í þessu nema að talað er og skýrslur gerðar. Ekkert hefur því gerst annað en að flutningsgjöldin hafa hækkað enn frekar. Þess vegna, virðulegi forseti, hef ég leyft mér að leggja fram svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. iðnaðarráðherra sem fer með þetta:

Hvað líður aðgerðum til að jafna flutningskostnað, samanber loforð ríkisstjórnarinnar fyrir síðustu alþingiskosningar?