132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Viðræður um framtíð varnarliðsins.

[10:44]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er eins og endranær að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er við sitt gamla heygarðshorn í varnar- og öryggismálunum. Það er enginn maður á hnjánum í þessu máli, hv. þingmaður. Það eru hér tvö fullvalda ríki að reyna að leita lausna á grundvelli samnings sem gerður var árið 1951 um varnir Íslands og viðræður um þetta hafa átt sér stað allnokkra hríð. Gerðar voru tilteknar bókanir um þessi mál 1994 og 1996 og það hefur verið ætlunin að halda þessu ferli áfram og komast að niðurstöðu um þau atriði sem hafa verið í óvissu. Hins vegar liggur ekki fyrir, og það er skýringin á því af hverju efnislegar samningaviðræður eru ekki hafnar, nákvæmlega á hvaða grunni þær eiga að vera og um það eru mismunandi sjónarmið. Það liggur fyrir af okkar hálfu það sem ég sagði áðan varðandi kostnaðarskiptinguna og gagnaðilinn hefur síðan sín sjónarmið. Þegar menn hafa ætlað að koma sér saman um þau atriði nákvæmlega hvað þeir ætla að semja um, þá er hægt að setjast niður og vinna frekar í málinu. Ég geri mér sem sagt vonir um að málið komist á þetta stig áður en mjög langt um líður án þess þó að ég geti um það fullyrt.