132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[10:58]
Hlusta

Sigurrós Þorgrímsdóttir (S):

Frú forseti. Hér er til umræðu þróun matvælaverðs en birtar hafa verið tvær opinberar skýrslur sem sýna hana vel. Önnur skýrslan er rannsókn Hagstofunnar sem birt var í sumar og sýnir niðurstöður úr könnun á neysluvenjum tvö þúsund heimila á landinu. Í skýrslunni kemur fram að neysluútgjöld heimilanna árið 2001–2003 eru nánast óbreytt frá tímabilinu 2000–2002. Hlutfall mat- og drykkjarvöru í heimilisútgjöldum hefur þó lækkað og er nú 15,2%. Útgjöld heimilanna í kaupum á mat- og drykkjarvöru hefur því lækkað um tæp 9% frá árinu 1995. Á sama tíma hefur kaupmáttur aukist umtalsvert.

Í skýrslunni kemur fram m.a., með leyfi forseta:

„Ráðstöfunartekjurnar hafa hækkað umfram atvinnutekjur og launavísitölu ef tekið er tillit til þess að heimilin hafa minnkað; ráðstöfunartekjur á mann hafa hækkað um 82% frá 1995 til 2003.“

Hin skýrslan er sú sem Hagfræðistofnun vann fyrir forsætisráðherra um samanburð á matvælaverði á Íslandi, Norðurlöndum og í ríkjum ESB, sem gefin var út núna í maí 2004. Ljóst er að verð á matvöru á Íslandi hefur sveiflast nokkuð miðað við verð á sambærilegri matvöru í Evrópulöndum undanfarin 15 ár. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar var Ísland í þriðja efsta sæti á listanum árið 2001. Rekja má þróun á Íslandi til gengisbreytinga og efnahagsástands á hverjum tíma. Þá hefur matvöruverð á Íslandi að jafnaði verið svipað og á hinum Norðurlöndunum og hefur í heild yfirleitt verið ofarlega á listanum. Í ljósi lækkandi verðlags á dagvörumarkaði á Íslandi árið 2005 verður að telja líklegt að staðan hafi batnað eitthvað gagnvart öðrum Evrópulöndum í ár.

Meginástæðu fyrir lækkandi matvöruverði á Íslandi má rekja til gengishækkunar (Forseti hringir.) á krónunni á síðustu missirum og verðstríðs á dagvörumarkaði sem braust út snemma á þessu ári.