132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:38]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki í hyggju að fara neitt sérstaklega yfir þá stöðu sem nú er. Það hefur tíðkast þegar flokkar taka sæti í ríkisstjórn að því fylgir ýmislegt eins og að ráða sér aðstoðarmenn, sem við erum einmitt að ræða um í þessu tilviki. Það hefur komið í hlut þeirra flokka sem taka að sér störf í ríkisstjórn, hvort heldur það eru núverandi flokkar í ríkisstjórn eða aðrir flokkar sem hafa verið í ríkisstjórn. Þetta hefur tíðkast og ég hef ekki í hyggju að fara neitt sérstaklega yfir það. Frumvarpið sem við ræðum nú gengur út á að aðskilja löggjafarvald og framkvæmdarvald. Mér finnst hins vegar eðlilegt ef það yrði samþykkt, þ.e. 12 nýir þingmenn frá stjórnarsinnum, að staðan yrði skoðuð sérstaklega. En ég mun ekki beita mér fyrir því að það verið skoðað afturvirkt miðað við hvernig hún er núna. Hv. þingmaður getur flutt mál um það ef hann telur það mjög mikilvægt, það er opið, en ég mun ekki gera það.