132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Ritun sögu þingræðis á Íslandi.

[13:48]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tel ekkert við það að athuga að forsætisnefnd þingsins hafi frumkvæði að því að rituð verði saga þingræðisins á Íslandi. Hún er þannig viðfangsefni að það er eðlilegt að menn hugi að því að taka saman þá sögu.

Ég tel hins vegar að val á manni til að rita söguna orki mjög tvímælis, bæði út frá faglegum forsendum og kannski ekki síður vegna þess að sá sem valinn var var þátttakandi í þeirri sögu. Hvernig í ósköpunum á maður að skrifa um eigin verk í sögu þingræðisins? Hann var ekki bara þátttakandi sjálfur á tímabili í þessari sögu heldur var hann formaður í stærsta stjórnmálaflokki landsins lengst af þessari sögu þingræðisins. Hvernig á hann að geta litið óhlutdrægt á þátt þess stjórnmálaflokks í þeirri sögu?

Virðulegi forseti. Almennar vanhæfisreglur stjórnsýsluréttarins dæma menn vanhæfa í svona stöðu. Menn eiga ekki að ganga fram í þessu efni með þeim hætti sem gert var. Ég tek þó fram að ég tel að Þorsteinn sé mætur maður og tel að hann hafi verið vandaður í störfum sínum sem þingmaður og ráðherra þannig að ekki er gagnrýni mín byggð á því að ég sé að víkja að honum persónulega.

Þá finnst mér það líka aðfinnsluefni að ekki skuli liggja fyrir nein áætlun um kostnað við verkið. Hvernig ætlar Alþingi að setja stofnunum ríkisins fjárlagaramma og hvetja þær til þess að fara vel með opinbert fé og gætilega þegar svona er staðið að málum hjá Alþingi sjálfu?