132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

[14:23]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls það innlegg sem þeir hafa haft í þessa umræðu sem mestan part hefur verið mjög málefnaleg ef undan er skilið innlegg hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns allsherjarnefndar, sem hér fór á allt annað flug og ræddi allt aðra hluti en hér hafa verið á dagskrá.

Ég vildi aðeins vegna þess innleggs sem hv. þingmaður var með aðeins nefna það þegar hv. þingmaður talaði um að menn vildu segja að hæstv. ráðherra væri vanhæfur en gerðu það ekki. Ég ítreka þau viðhorf sem ég hef í þessum málum en vildi kannski sem dæmi taka yfirlýsingu á heimasíðu hæstv. dómsmálaráðherra frá 25. apríl 2002, en þar segir, með leyfi forseta:

„Heift í garð stjórnvalda ræður ríkjum innan Baugsveldisins. Er einsdæmi að stjórnendur verslunar- og fjölmiðlasamsteypu beiti sér með þeim orðum gagnvart ríkisstjórn og löggjafarvaldi sem við blasir um þessar mundir. Verður spennandi að sjá hvaða stjórnmálamenn skortir þrek til að standast þetta áhlaup í krafti fjármagns og fjölmiðla.“

Ég held að orð af þessum toga geri það að verkum og kalli fram þá umræðu sem fram hefur farið að það yrði afar óheppilegt ef hæstv. dómsmálaráðherra skipar nýjan saksóknara. Vel má vera að vel takist til en hættan er sú að málið kunni að bíða enn frekara skipbrot en orðið er og það held ég að sé hvorki þessu samfélagi, réttarkerfinu né dómstólum til nokkurra bóta ef eitthvað slíkt gerðist í framhaldinu. Það er mikilvægt að vel verði á þessu máli haldið, það er mikilvægt að það verði leitt til lykta, það er mikilvægt að rétt niðurstaða fáist og þess vegna er mikilvægt að yfirvöld vandi sig eins og nokkur er kostur við frekari meðferð þessa máls. Ég ítreka því það sem ég sagði í fyrra máli mínu að það væri heppilegt ef hæstv. dómsmálaráðherra segði sig frá málinu.