132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

189. mál
[14:50]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst öll þau atriði sem hv. þingmaður nefndi eðlilegt athugunarefni í nefndinni. Ég tel mig geta fullyrt að með þessu frumvarpi fullnægjum við því sem okkur ber, samkvæmt aðild okkar að Schengen, og engu bætt inn í þetta af okkar hálfu. Þetta er sameiginlegt upplýsingakerfi fyrir öll aðildarríki Schengen-samstarfsins og um samræmdar reglur á milli allra ríkjanna að ræða. Það er talið nauðsynlegt að fá lagaheimildir fyrir þessum þáttum m.a. vegna þess að þeir snerta persónuleg málefni og talið eðlilegt að löggjafarþing í aðildarríkjunum fjalli um málið. Ég vænti þess að allsherjarnefnd muni gera það.

Þess hefur verið gætt við gerð þessa frumvarps, sem er afsprengi gerðanna frá Schengen, að það stangist ekki á við skuldbindingar ríkjanna, hvorki að því er persónuvernd varðar, reglur um mansal, Palermo-samninginn eða hvaðeina sem ríkin hafa gengist undir. Ég tel víst að allsherjarnefnd fái staðfestingu á því að þetta frumvarp samræmist öllum þeim kröfum sem til okkar eru gerðar á grundvelli annarra samninga.

Varðandi það að ríkislögreglustjóra sé í 3. gr. heimilað að veita þar til bærum yfirvöldum í öðru Schengen-ríki nauðsynlegar viðbótarupplýsingar í tengslum við skráningu í upplýsingakerfið, sem og þegar hlutir eða einstaklingar sem skráðir hafa verið í kerfið finnast, þá spyr þingmaður: Hver eru þessi þar til bæru yfirvöld í öðru Schengen-ríki? Það fer eftir Schengen-samkomulaginu. Menn tíunda ekki nöfnin á einstökum sambærilegum yfirvöldum og ríkislögreglustjóranum hér. Þetta er spurning um að þau yfirvöld sem leita frá Schengen-ríkjum eftir upplýsingum séu innan þeirra marka sem umsamið er að þau eigi rétt til.

Það er umræðuefni á vettvangi Schengen-samstarfsins hvaða kröfur eigi að gera í sambandi við upplýsingamiðlun á milli landa. Hvaða kröfur menn geti gert þegar beðið er um upplýsingar, hvaða fyrirhafnar geta menn stofnað til til þess að svara o.s.frv.? Í þessu tilliti er gaumgæfilega farið yfir málefnið og ég er viss um að í nefndinni geta menn einnig fengið nánari skýringu á þessu. Þetta er sem sagt eins og segir hér:

„Með þar til bærum yfirvöldum í ákvæðinu er átt við yfirvöld í Schengen-ríki sem hafa beinan aðgang að Schengen-upplýsingakerfinu.“

Það eru yfirvöld í Schengen-ríki sem hafa beinan aðgang að upplýsingakerfinu og þá verða menn að skoða hvernig því er háttað í einstökum löndum, fá skrá yfir það og átta sig á því hvernig það er. Þessar spurningar allar eru málefnalegar og réttmætar. Ég tel víst að allsherjarnefnd muni fá ítarlegri svör við þeim þegar hún fjallar um málið og fer yfir það.

Varðandi frumvarpið sem flutt var í vor þá er það rétt hjá hv. þingmanni að fram kom frumvarp sem ekki var útrætt á þinginu. En það náði aðeins til eins hluta af þeim fjórum þáttum sem frumvarpið spannar núna.