132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:13]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega fyrst og fremst afstaða Vinstri grænna til þessa máls sem er vanhugsuð, það er mjög athyglisvert. Hér erum við að leggja á ráðin um stórbætta þjónustu á sviði fjarskipta um allt land. Ætlar sá flokkur, Vinstri grænir, að leggjast gegn því? Það er mjög athyglisvert.

Hvers vegna er þetta ekki falið Vegagerðinni? Vegagerðin hefur ekki neitt með fjarskiptamálefni að gera og ég tel það ekki skynsamlegt að blanda henni inn í þá starfsemi, hún hefur alveg nóg á sinni könnu. En Póst- og fjarskiptastofnun hefur þekkingu innan sinna vébanda til þess að sinna þessu verkefni að því marki sem þeirri stofnun er ætlað að gera það.

Síðan er alveg ljóst að framkvæmdin verður á þann veg að það verður útboð á þessari uppbyggingu og það verða fjarskiptafyrirtækin sem sjá um framkvæmdina. Það er útboð á uppbyggingu senda og uppsetningu búnaðar til gervihnattasendinga og rekstri. Það er því gert ráð fyrir að fjarskiptafyrirtækin sjái algjörlega um uppsetningu á þessum sendum og þessum búnaði og reksturinn. Fjarskiptafyrirtækin fá síðan tekjur vegna aukinna viðskipta og aukinnar þjónustu um þessi kerfi sem gert er ráð fyrir að setja t.d. á sviði GSM-sendinganna við þjóðvegina og á helstu ferðamannastöðum.

Við vekjum athygli á því sem er óarðbært, svo sem eins og fjarskiptasendingum á Háreksstaðaleið. Þar er mjög lítil notkun, en við teljum að það sé bæði öryggisatriði og sjálfsögð þjónusta að byggja þar upp. Við viljum láta þennan sjóð byggja upp á slíkum svæðum og það eru fjarskiptafyrirtækin sem munu gera það.