132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:43]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér fannst þetta miklu skýrara núna, að fjarskiptin væru ekki alls staðar góð, og þá erum við orðin sammála um það eins og ég tók dæmi um. Hv. þingmaður ræddi líka um alþjónustuna sem við settum í lög. Það var merkilegt ákvæði á sínum tíma sem allir voru mjög stoltir af og ánægðir með. En framþróunin og tæknin er slík að kannski einu ári seinna eða svo var ISDN-tengingin sem við vorum að bjóða upp á, m.a. til bænda, orðið dálítið úrelt og lélegt samband. Það er þannig í dag að þegar maður þekkir háhraðatengingar, eins og t.d. við þingmenn búum við, og maður þarf að nota ISDN-samband þá get ég sagt fyrir mitt leyti að ég sleppi því frekar. Tækniþróunin er slík að það var eiginlega orðið úrelt rétt eftir að við samþykktum ákvæðið. Tækniþróunin er svo mikil og sífellt er boðið upp á meiri hraða í örbylgju. Ég vonast því til að fjarskiptasjóðurinn sem verið er að stofna taki dálítinn þátt í því að koma meiri háhraða eins og til bænda í gegnum örbylgjusamband. Ég tók einu sinni dæmi um Trabant eða Mercedes Benz sem ráðherrabíl og ég ætla ekki að halda þá ræðu einu sinni enn en ISDN-tengingum í dag líki ég við Trabant og ADSL sem ráðherrar nota og Benz er töluvert betra.