132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:33]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að okkur þingmönnum og alþjóð komi ekki á óvart einlægur vilji forustu Framsóknarflokksins til að einkavæða almannaþjónustuna. Það hefur sýnt sig svo rækilega á síðustu árum að forusta Framsóknarflokksins gengur þar meira að segja þannig fram að Sjálfstæðisflokkurinn má hafa sig allan við til að fylgja eftir í þeim einkavæðingaráhuga sem forusta Framsóknarflokksins sýnir.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz gæti kannski rifjað upp hvaða skoðun kjósendur Framsóknarflokksins hafa á stefnu hans í einkavæðingarmálum þegar Gallup-könnun varðandi sölu Landssímans sýndi hvað eftir annað að 70–80% af því fólki sem hafði kosið Framsóknarflokkinn síðast voru andvíg einkavæðingu og sölu Landssímans en stjórn og forusta Framsóknarflokksins keyrði það fram. Einkavæðingaráhugi Framsóknarflokksins á almannaþjónustunni og raforkukerfinu eins og hv. þm. minntist á kemur því engum á óvart. Þar gekk Framsóknarflokkurinn fram í markaðsvæðingu raforkukerfisins og hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins lýsti því yfir í fyrravetur að næst á dagskrá væri að selja orkufyrirtækin. Einkavæðingaráhugi Framsóknarflokksins kemur engum á óvart. En forustan ætti kannski að athuga að kjósendur Framsóknarflokksins við síðustu alþingiskosningar — ég vona að þeir kjósi hann ekki næst — eru ekki sama sinnis samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið og forusta Framsóknarflokksins er í einkavæðingarmálum. Það tekur til Símans og það tekur til raforkunnar og það ætti hv. þingmaður að hafa hugfast.